Flugfélög höfða skaðabótamál

AFP

Þrjú stærstu flugfélög Kína hafa höfðað skaðabótamál á hendur bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing vegna kyrrsetningar og tafa á afhendingu 737 MAX 8-farþegaþota félagsins í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa. Greint er frá þessu í kínverskum fjölmiðlum í dag.

Um er að ræða flugfélögin China Southern Airlines, China Eastern Airlines og Air China. Talsmaður China Eastern staðfestir þetta við AFP-fréttastofuna en ekki er upplýst hve háar fjárhæðir flugfélögin gera kröfu um frá Boeing.

11. mars varð Kína fyrsta ríki heims til þess að kyrrsetja 737 MAX-þotur flugfélaga í landinu en daginn áður hafði þota Ethiopian Airlines brotlent fljótlega eftir flugtak í Addis Ababa og létust allir um borð, alls 157 manns. Meðal þeirra sem voru um borð voru átta Kínverjar. 

Samkvæmt frétt Xinhua hefur kyrrsetningin haft gríðarleg fjárhagsleg áhrif á rekstur flugfélaganna og eykst kostnaðurinn jafnt og þétt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert