Tíu ára gömul stúlka frá El Salvdor lést í haldi bandarískra yfirvalda á landamærum Mexíkó í september en fyrst var greint frá því í dag. Alls hafa því sex börn látist á landamærunum eftir að hafa verið sett í varðhald við að reyna að komast inn í landið á átta mánuðum.
Samkvæmt frétt BBC hefur nafn stúlkunnar ekki verið gefið upp né heldur hvernig hún komst til Bandaríkjanna en hún lést á sjúkrahúsi í Nebraska. Vitað er að hún var hjartveik.
Demókratar hafa farið fram á rannsókn á andláti hennar en forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur heitið því að stöðva alla þá sem reyna að komast með ólöglegum hætti yfir landamærin.
Stúlkan sem um ræðir komst í umsjá yfirvalda í San Antonio, Texas, 4. mars í fyrra og var mjög veik segir í frétt BBC. Hún fór í einhverjar aðgerðir á sjúkrahúsi en var úrskrifuð í maí. Þaðan fór hún á hjúkrunarheimili í Phoenix, Arizona. 26. september var hún flutt á hjúkrunarheimili í Omaha, Nebraska, til þess að vera nær fjölskyldunni en hún lést þar þremur dögum síðar.