Tilkynnti hvarf dóttur og var settur í þrif

Pakistanskir lögrelgumenn að störfum. Mynd úr safni.
Pakistanskir lögrelgumenn að störfum. Mynd úr safni. AFP

Fjölskylda 10 ára pakistanskrar stúlku sem var rænt og hún síðan myrt segir lögreglu hafa reynt að hunsa þau er þau tilkynntu hvarfið.

BBC segir lögreglu hafa sagt fjölskyldunni að stúlkan kynni að hafa hlaupist á brott af fúsum og frjálsum vilja og létu lögreglumennirnir fjölskylduna sinna ýmsum erindum fyrir sig.

Stúlkan, sem hét Farishta, hvarf í höfuðborginni Islamabad 15. maí og síðasta mánudag fannst lík sem talið er vera af henni. Lögregla rannsakar nú hvort hún hafi sætt pyntingum eða kynferðislegri misnotkun.

Hundruð manns mótmæltu í  miðborginni í gær til að krefjast réttlætis fyrir Farishtu, en lögreglumennirnir sem að málinu koma neita því að hafa gert nokkuð rangt.

Máli Farishtu hefur verið líkt við morðið og nauðgunina á hinni sex ára gömlu Zainab Ansari, sem átti sér stað í janúar í fyrra. Mál hennar vakti mikla reiði og leiddi til mótmælaöldu um landið.

„Lögreglan hjálpaði okkur alls ekki,“ segir Ghula Nabi, faðir Farishtu, í samtali við BBC. „Þeir báðu mig hins vegar að þrífa skrifstofu sína, flytja húsgögn og ná í ávexti fyrir Iftar [þegar fasta er rofinn] af markaðinum. Ég var í svo miklu uppnámi þessa [fjóra] daga að ég þekkti ekki nótt frá degi.“

Segir sökina fjölskyldunnar

Það var svo í gær sem kæra var lögð fram gegn lögreglumönnunum vegna vanrækslu og hefur stöðvarstjóranum á lögreglustöðinni verið vikið úr starfi.

Stöðvarstjórinn, Muhammad Abbas Rana, hefur hins vegar varið gjörðir sínar og undirmanna sinna. Segir hann þá víst hafa rannsakað málið og m.a. rætt við nágranna stúlkunnar og fjölskyldu. Segir hann fjölskylduna bera ábyrgð á þeim töfum sem hafa orðið, þau hafi verið sein til að tilkynna að hennar væri saknað og ekki fylgt málinu eftir af alvöru. Hafnaði hann því alfarið að þau hefðu verið látin þrífa lögreglustöðina.

BBC segir þrjá einstaklinga nú hafa verið handtekna í tengslum við hvarf Farishtu, en formleg rannsókn hófst ekki á hvarfi hennar fyrr en stjórnmálamaður tók það upp við lögreglustjóra Islamabad sl. laugardag.

Það var svo á mánudagskvöld sem ótti fjölskyldunnar var staðfestur, þegar lík sem talið er vera af Farishtu fannst. Þá var þeim hins vegar tilkynnt að hún yrði ekki krufin í bráð þar sem læknirinn sem á að framkvæma krufninguna væri í fríi. Í kjölfarið ákvað fjölskyldan að fara í setuverkfall á sjúkrahúsinu og hefur hópur aðgerðasinna nú bæst í hópinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert