„Bandaríski talibaninn“ látinn laus

Tvo andlit John Walker Lindh.
Tvo andlit John Walker Lindh. AFP

John Walker Lindh, sem er þekktur undir heitinu „bandaríski talibaninn“, var látinn laus úr fangelsi í gær eftir að hafa afplánað 17 ár af 20 ára dómi sem hann hlaut fyrir að berjast með talibönum í Afganistan árið 2001.

Fangelsismálastofnun Bandaríkjanna staðfesti við AFP-fréttastofuna að Lindh hefði verið látinn laus snemma í gærmorgun frá alríkis-öryggisfangelsinu í Terre Haute, Indiana.

Lögmaður Lindh, Bill Cummings, segir í samtali við CNN  að Lindh, sem er 38 ára gamall, ætli að setjast að í Virginíu en afar ströng skilyrði eru sett fyrir reynslulausn hans. Til að mynda hvað varðar netaðang og samskipti við aðra íslamista. 

Terre Haute fangelsið þar sem John Walker Lindh hefur afplánað …
Terre Haute fangelsið þar sem John Walker Lindh hefur afplánað undanfarin 17 ár. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, lýsti því yfir í gær að hann væri afar ósáttur við að Lindh hefði verið látinn laus en lögmenn ríkisstjórnarinnar hefðu tjáð honum að ekki væri mögulegt að halda honum lengur í fangelsi. „Við munum fylgjast með honum og við munum fylgjast grannt með honum,“ sagði Trump við fréttamenn. 

„Það sem fer mest í taugarnar á mér er að við erum með mann sem hefur ekki breytt um skoðun varðandi hryðjuverk. Að við þurfum að láta slíkan mann lausan,“ segir Trump og bætir við: „er ég sáttur við það? Nei alls ekki.“

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fyrrverandi framkvæmdastjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna, Mike Pompeo, fordæmir lausn Lindh og segir að leyniþjónustumaður hafi verið drepinn þegar Lindh var fangaður árið 2001. Pompeo segir í viðtali við Fox News að Lindh sé enn með sögu skoðanir og áður. 

Í stríði Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum var Lindh nefndur Detainee 001 og hefur lausn hans nú vakið minningar margra varðandi hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 en Lindh sagði við yfirheyrslur á sínum tíma að árásin á Bandaríkin 11. september hefði átt að vera sú fyrsta af þremur sem al-Qaeda-samtökin hugðust gera í landinu á skömmum tíma. Þá kvaðst hann hafa hafnað tilboði um að taka þátt í sjálfsvígsárás gegn Bandaríkjunum, að því er fram kemur í leynilegum gögnum sem sjónvarpsstöðin CNN birti árið 2002.

Um er að ræða gögn sem eru hluti af yfirheyrslu liðsmanna bandarískra sérsveita yfir Lindh, sem var tekinn til fanga þegar Bandaríkjamenn gerðu árás á Afganistan í lok síðasta árs. Einnig er þar að finna gögn sem greina frá yfirheyrslu bandarísku alríkislögreglunnar yfir Lindh. Þar kemur fram að hann hafi átt tengsl við liðsmenn al-Qaeda, sem hafi greint frá því að samtökin hefðu í hyggju að gera þrjár árásir í Bandaríkjunum. Önnur árásin hefði átt að eiga sér stað nærri kjarnorkuveri eða olíu- eða gasleiðslum. Þá hefði efnavopnaárás komið til greina. Önnur árásin átti að eiga sér stað í nóvember og sú þriðja í upphafi árs 2002, að sögn CNN.

Lindh, sem var í æfingabúðum al-Qaeda í nokkrar vikur í Afganistan, greindi í yfirheyrslunum frá því að al-Qaeda hefði sent að minnsta kosti 50 manns til þess að taka þátt í sjálfsmorðsárásum gegn Bandaríkjunum og Ísrael. Sjálfur kveðst hann hafa hafnað því að ganga samtökunum á hönd og taka þátt í árásunum.

Ekkert er vitað frekar um áform Lindh annað en að hann ætli að setjast að í Virginíu. Fjölskylda hans hefur ekki tjáð sig en hún býr skammt frá San Francisco í Kaliforníu. Lindh snerist til íslams þegar hann var 16 ára gamall og fór til Jemen árið 1998 að nema arabísku. Hann kom aftur heim í nokkra mánuði en fór aftur til Jemen árið 2000 og fór þaðan til Pakistan að nema við trúarskóla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert