Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur skipað bandarískum leyniþjónustustofnunum að sýna samstarfsvilja með rannsókn á því hvort njósnað hafi verið um hann í aðdraganda forsetakosninganna 2016.
Dómsmálaráðherrann, William Barr, munu stýra rannsókninni, en Barr er nú með til skoðunar uppruna rannsóknarinnar á afskiptum rússneskra ráðamanna af kosningunum. BBC segir Trump lengi hafa krafist þess að slík rannsókn færi fram, en hann hefur ítrekað vísað til rannsóknar Robert Muellers, sérstaks saksóknara FBI, á afskiptum Rússa sem „nornaveiða“.
Það var svo í gær sem forsetinn tilkynnti um forsetatilskipun sem veitir Barr aukið vald, m.a. til að létta leynd af trúnaðarskjölum. Dómsmálaráðherrann sætir nú þegar mikilli gagnrýni af hálfu demókrata á þingi sem hafa sakað hann um að ganga mála forsetans, ekki bandarísku þjóðarinnar.
Trump hefur ítrekað fullyrt að njósnað hafi verið um kosningaframboð sitt og hefur sakað bandarískar leyniþjónustustofnannir um að misnota vald sitt. Hefur forsetinn gengið svo langt að segja slíkt jaðra við „landráð“ og hefur jafnvel gefið í skyn að ákæra ætti þá sem tekið hafi þátt í slíku.
Barr sagði þingheimi í apríl að það hefði verið njósnað um framboð Trumps og að hann vildi tryggja að öll upplýsingaöflun hefði verið lögleg. Það var svo fyrr í þessum mánuði sem Barr fékk alríkissaksóknara það verk að skoða uppruna Rússarannsóknarinnar. Trump hefur hins vegar alfarið hafnað því að hafa beðið Barr um að gera slíkt.