Á meðan YouTube hefur fjarlægt falsað myndband af Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, neitar Facebook að eyða því, þrátt fyrir kröfur þar um. Talsmaður Facebook segir að þar á bæ sé tekið öðruvísi á misvísandi gögnum sem þessum.
Umrætt myndband er af Nancy Pelosi í ræðustól þar sem hún hálfdrafar og talar óskýrt. Yfirbragð myndbandsins allt gefur þannig til kynna að hún eigi óhægt um tal, hvort sem það kunni að vera af völdum vímuefna eða annars. Og myndbandið er falsað, það er vísvitandi hægt á hljóðinu til þess að kalla fram þessi áhrif.
Facebook hefur verið krafið um að eyða myndbandinu en neitar að gera það. Viðbrögð fyrirtækisins eru öðruvísi. Ferlið sem fer í gang hjá þeim er þannig að þeir sem sjá myndbandið fá sérstaka tilkynningu í leiðinni um að myndbandið sem um ræðir geymi falskar upplýsingar. Auk þess er dreifing myndbandsins er heft með ýmsu móti. En myndbandinu er ekki eytt.
Íhaldsveitan Politics WatchDog dreifði falsaða myndbandinu kl. 13.29 á bandarískum tíma 22. maí. Það var ekki fyrr en eftir klukkan 21 um kvöldið daginn eftir sem Facebook byrjaði að hefta dreifingu þess. Þannig tók það 32 klukkustundir að bregðast við fölsuðum upplýsingum.
Eigendur síðunnar hafa fjarlægt myndbandið en það er enn í dreifingu á Facebook.
Donald Trump Bandaríkjaforseti deildi myndbandinu einnig:
Talsmaður Facebook, Monika Bickert að nafni, var spurður af CNN hvers vegna myndbandinu væri ekki einfaldlega eytt út af Facebook, þar sem sérfræðingar hjá Facebook hefðu skorið úr um að það væri sannarlega falsað. Svarið var á þá leið að ekkert væri fjarlægt af síðunni nema það varðaði beinlínis öryggi fólks, eins og til dæmis ef harðvítug átök ættu sér stað og fölskum upplýsingum væri dreift um þau, sem gætu ógnað öryggi fólks.
Bickert var þá spurð hvort ekki teldist nægilega áríðandi að verið væri að sýna þriðja valdamesta stjórnmálamann í Bandaríkjunum í brengluðu ljósi. Svarið var að Facebook teldi bera mikinn árangur að tilkynna fólki einfaldlega að upplýsingarnar væru falskar. Umræðan um þetta tiltekna myndband sýndi að fólk væri meðvitað um fölsku upplýsingarnar.
Fréttamaðurinn spurði Bickert þá hvort Facebook bæri ekki ábyrgð á fréttum sem þar væri dreift, þar sem fyrirtækið græðir bersýnilega á því að fréttaflutningur fari fram á síðum þeirra. „Ef þetta eru falskar upplýsingar sem varða öryggi fólks getum við og munum við fjarlægja þær,“ sagði Bickert. „En við teljum rétt að leyfa fólki að taka sínar eigin ákvarðanir í kringum pólitíska umræðu,“ sagði hún.
Bickert sagði að Facebook væri í samstarfi við fleiri en 50 fyrirtæki sem sérhæfðu sig í að sannreyna upplýsingar og tilkynna Facebook það þegar falskar fréttir færu í dreifingu.