Brexit-flokkurinn vann afgerandi kosningasigur í Bretlandi í Evrópuþingkosningunum með Nigel Farage í broddi fylkingar. Bretar fá 73 þingsæti á Evrópuþinginu og fyrir liggur að Brexit-flokkurinn fær 28 sæti, með 32% greiddra atkvæða, en talningu er lokið í 10 af 12 kjördæmum í Bretlandi.
Á sama tíma tapa tveir stærstu flokkarnir á breska þinginu fjölda þingsæta á Evrópuþinginu. Íhaldsflokkurinn fær þrjú sæti og er fimmti stærsti flokkurinn og Verkamannaflokkurinn fær 10 þingsæti.
Frjálslyndir demókratar og Græningjar áttu góðu gengi að fagna í kosningunum, sá fyrrnefndi með 15 þingmenn og síðarnefndi með sjö. „Hvert atkvæði til Frjálslyndra demókrata er atkvæði til að stöðva Brexit,“ segir Jo Swinson, leiðtogi flokksins.
Farage, sem hefur setið á Evrópuþinginu fyrir Breta í 20 ár, lengst af fyrir UKIP, fer fram á að Brexit-flokkurinn fái sæti við samningaborðið um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Vísar Farage til þess að í flokknum sé fjöldi fólks sem hefur reynslu af álíka viðræðum.
Af nægu er að taka hjá hinum unga Brexit-flokki sem undirbýr sig nú fyrir þingkosningar í Bretlandi. Farage fullyrðir að ef Bretar verði ekki búnir að yfirgefa ESB fyrir 31. október verði úrslit þingkosninganna svipuð fyrir Brexit-flokkinn og nú um helgina.