„Þetta eru líklega mikilvægustu Evrópuþingkosningar frá upphafi, það held ég að sé alveg augljóst,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, um nýafstaðnar kosningar til Evrópuþingsins.
Græningjar, frjálslyndir og þjóðernissinnar eru sigurvegarar Evrópuþingkosninganna sem lauk í gær á meðan tvö stærstu flokkabandalögin á þinginu, jafnaðarmenn (S&D) og bandalag hófsamra hægriflokka (EPP), tapa hvort um sig rúmlega 40 sætum og hafa í fyrsta sinn frá stofnun Evrópuþingsins ekki samanlagðan meirihluta þingsæta þrátt fyrir að vera eftir sem áður stærstu tvö bandalögin á þinginu.
Kjörsókn hefur farið hnignandi í Evrópuþingskosningum hingað til en kjörsókn jókst til muna frá kosningunum fyrir fimm árum, og fór úr 41% í 51%. Er það í fyrsta sinn frá stofnun Evrópuþingsins árið 1979 sem kjörsókn dregst ekki saman milli kosninga.
Eiríkur segir það skýrt dæmi um aukið mikilvægi Evrópuvettvangsins, þ.e. samtarf milli allra Evrópuríkja, ekki bara þeirra sem tilheyra Evrópusambandinu. „Evrópuvettvangurinn er orðinn mikilvægari fyrir alla stjórnmálaumræðu í þessari álfu. Það er svolítið merkileg breyting.“
Eiríkur segir að ákveðið samevrópskt samtal sé að verða til á Evrópuþinginu sem ekki hefur tekist áður. Á sama tíma eru hins vegar nýjar átakalínur að myndast í stjórnmálum almennt.
„Átakalínur sem eru ekki á milli hins hefðbundna vinstris og hins hefðbundna hægris, heldur á milli íhaldssamrar þjóðernishyggju annars vegar og frjálslyndrar alþjóðahyggju hins vegar. Við höfum séð það endurspeglast í hinni miklu breytingu sem hefur orðið á Evrópuþinginu að bandalag hófsamra hægriflokka og svo Sósíaldemókratar, sem hafa ráðið lögum og lofum á þinginu í sameiningu, þessir flokkar tapa mjög miklu og fylgið færist, annars vegar til harðlínuþjóðernissinna sem hafa miklar efasemdir um Evrópusamrunann en líka hins vegar til afla sem tala fyrir miklu nánari samruna, það er græningjar og frjálslyndi flokkahópurinn.“
Von er á frekari átökum á Evrópuþinginu að mati Eiríks og segir hann að búast megi við að starfsemin á þinginu verði meira í líkingu við hefðbundna starfsemi þjóðþinga.
„Þetta huggulega teboð sem hefur verið í boði hófsamra hægrimanna og sósíaldemókrata, það mun ekki lengur verða jafn huggulegt því að þeir verða núna að taka tillit til sjónarmiða sem eru annars vegar mun lengra úti á ási þjóðernissinnaðra íhaldsstefnu og svo hins vegar mjög róttækra alþjóðasinna. Svo eru frjálslyndir að fara fram líka, sem hafa alltaf verið áköfustu Evrópusinnarnir,“ segir Eiríkur og bendir á að svið stjórnmálanna á Evrópuþinginu er orðið mun breiðara en áður. „Þannig að við hljótum að búast við meiri átökum.“
Einn af stærri kosningasigrunum kom án efa í hlut Brexit-flokksins sem hlaut 32% kosningu í Bretlandi og 32 af 73 þingsætum Breta á þinginu. „Þetta er auðvitað mjög mikill sigur en hann felst fyrst og fremst í hruni Íhaldsflokksins í þessum kosningum,“ segir Eiríkur.
„En á móti kemur að það eru líka mjög Evrópusinnaðir flokkar sem sækja verulega í sig fylgi. Við erum að sjá sömu þróun í Bretlandi og víða í Evrópu. Græningjar og frjálslyndir fara upp á móti framgangi þjóðernissinnanna. En það sem er athyglisverðast í Bretlandi er að þar er tveggja flokka kerfi sem er tilkomið vegna kosningalaganna þeirra, en á Evrópuþinginu eru hlutfallskosningar og þá hrynja stóru flokkarnir. Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir þá fyrir næstu þingkosningar,“ bætir Eiríkur við. Yfirlýsingar Nigel Farage, stofnanda flokksins, um að Brexit-flokkurinn muni ná jafn góðum árangri í komandi þingkosningum í Bretlandi ber að taka með fyrirvara að mati Eiríks þar sem kosningakerfið er gjörólíkt.
„En niðurstaðan í Bretlandi staðfestir þá upplausn sem orðið hefur að völdum Brexit sem flokkarnir ráða engan veginn við. Það er algjört ráðleysi í breskum stjórnvöldum og hefur verið í þrjú ár,“ segir Eiríkur. Að hans mati er ómögulegt að spá fyrir um framtíð breskra stjórnmála.