Kanadískur áhugaljósmyndari er frá sér numinn vegna þeirra viðbragða sem hann hefur fengið um heim allan vegna ljósmyndar sem hann tók af skallaerni.
Photographer 'overwhelmed' by response to bald eagle picture https://t.co/NK2CN4Co3Q
— BBC News (World) (@BBCWorld) May 27, 2019
Steve Biro náði fallegri mynd af erninum Bruce á dýraverndarsvæði í Kanada og birti hana fyrst í nokkrum ljósmyndahópum á Facebook.
Myndin af erninum starandi á ljósmyndarann með pírðum augum sínum hefur síðan þá farið eins og eldur í sinu um netið.
Myndin var ein af nokkur hundruð sem Biro tók af fuglinum þennan dag. „Hann passaði fullkomlega í rammann. Báðir vængirnir snerta vatnið,“ sagði hann við BBC. „Mér fannst þessi mynd aðeins merkilegri en hinar. En ég áttaði mig samt ekki á því hversu vel hún átti eftir að ná til fólks.“
Á endanum komst myndin á forsíðu vefsíðunnar Reddit og hefur síðan þá verið birt í fjölmiðlum víðs vegar um heiminn.
„Ég fann gustinn frá vængjunum þegar hann flaug yfir mig. Annað fólk sem var þarna gapti þegar hann flaug yfir höfuðið á mér. Þetta var mjög spennandi,“ sagði Biro.