Erfitt að komast í flug vegna verkfalla

Frá Schiphol-flugvelli við Amsterdam.
Frá Schiphol-flugvelli við Amsterdam. AFP

Almenningssamgöngur af öllu tagi liggja niðri í Hollandi í dag vegna verkfalla starfsmanna. Það hefur raskað flugi á Schiphol-flugvelli við höfuðborgina Amsterdam, en farþegar hafa átt í miklum erfiðleikum með að koma sér á völlinn.

„Fjöldi flugfélaga hefur aflýst ferðum sínum,“ sagði Williemeike Koster, talskona flugvallarins, en þeirra á meðal eru hollenska flugfélagið KLM, Ryanair og Easyjet.

Bæði flug Icelandair frá Amsterdam í dag eru á áætlun, samkvæmt upplýsingum á vef Keflavíkurflugvallar.

Koster segir þunga umferð vera á akvegum í átt að flugvellinum og að einungis fjórar lestar gangi á milli Amsterdam og Schiphol á hverjum klukkutíma í dag, í staðinn fyrir 25 á klukkustund eins og venjan er.

Verkalýðsfélög í Hollandi fara fram á að lífeyrisgreiðslur verði hækkaðar og kalla sömuleiðis eftir því að fólk geti farið á eftirlaun 66 ára að aldri.

Opna bílagöng fyrir hjólreiðafólk

Vegna verkfallanna í dag brugðu borgaryfirvöld í Amsterdam á það ráð að gera það sem í þeirra valdi stæði til þess að reyna að tryggja hámarks skilvirkni í borgarumferðinni, á milli norðurhluta borgarinnar og miðborgarinnar.

Þess vegna var gripið til þess ráðs að loka fyrir bílaumferð um IJ-jarðgöngin, sem liggja á milli borgarhlutanna, og leyfa einungis hjólreiðafólki að fara þar í gegn, eins og sjá má í myndskeiðinu hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert