Bandarískur fjallgöngumaður lést á Everest í gær og hafa því níu fjallgöngumenn látist í suðurhlið hæsta fjalls heims þetta vorið. Tveir hafa látist á norðurhlið Everest í vor. Tíbetskir háfjallastarfsmenn komu áströlskum fjallgöngumanni til bjargar á Everest í gær en þeir höfðu gengið fram á hann meðvitundarlausan á norðurhlið fjallsins. Hann er kominn á sjúkrahús í Katmandú.
Christopher John Kulish, sem var 61 árs að aldri, náði á tind Everest í gær en lést óvænt á leið niður suðurhlið fjallsins. Ekki er vitað um dánarorsök. Flestir þeirra sem hafa látist í ár örmögnuðust vegna þess hversu mikil örtröð myndaðist á leiðinni á tindinn sem þýddi að fjallgöngumennirnir þurftu að bíða eftir að komast upp.
Allt í allt hafa um fimm þúsund manns afrekað að standa á tindi Everest en um 300 hafa látist í hlíðum fjallsins, segir í frétt Guardian.