Mávur kyrrsetur hönnunarnema

Nýi meðnotandi Paulsens að bifreið hans, mávur sem liggur á …
Nýi meðnotandi Paulsens að bifreið hans, mávur sem liggur á þremur eggjum í hreiðri á þakinu, mun að líkindum liggja þar tæpan mánuð og góð ráð dýr fyrir námsmanninn sem er á leið heim úr skóla í sumarfrí, en að færa hreiður með eggjum í er brot á norskum náttúruverndarlögum. Ljósmynd/Birk Martinius Paulsen/Úr einkasafni

Hinn tvítugi Birk Martinius Paulsen, nemandi í iðnhönnun við Háskólann í Østfold í Noregi, fékk, að sér fornspurðum, annan notanda að bifreið sinni, máv nokkurn sem nú liggur í mestu makindum á þremur eggjum í hreiðri sínu á þaki færleiksins.

Paulsen brá ekki nógu skjótt við og færði hreiðrið áður en eggin litu dagsins ljós því eftir að þau eru komin þangað telst það brot á norskum lögum um vernd náttúru, landslags og líffræðilegs fjölbreytileika frá 2009 (n. Lov om bevaring av natur, landskap og biologisk mangfold) að færa eða eiga við hreiður þar til ungarnir eru skriðnir úr eggjunum.

Í tilfelli mávsins tekur það ferli 25 til 28 daga að jafnaði og er námsmanninum unga nú vandi á höndum þar sem hann hyggst halda heim til sín í Telemark í sumarfrí um leið og skólinn er úti eftir tvær vikur og helst á bifreið sinni.

Ók í búðina með þann hvíta á toppnum

Reyndar hefur Paulsen ekið um með mávinn á toppnum, hefur norska ríkisútvarpið NRK eftir honum, en það var Fredriksstad Blad, sem rekur læsta síðu, sem fyrst ræddi við námsmanninn. Hann lullaði löturhægt í hverfisbúðina sína til að kaupa í matinn og hreyfði sá hvíti á þakinu engum mótmælum.

„Ég á von á fuglafræðingi frá Halden til að aðstoða mig,“ segir Paulsen við dagblaðið VG, „hann telur að leyfilegt sé að byggja pall og færa hreiðrið yfir á hann,“ útskýrir hönnunarneminn sem er í hálfgerðri gíslingu, en mávurinn fær frekar lítið næði þar sem bíllinn stendur nú á þröngu bílastæðinu við skólann þar sem fjöldi nemenda kemur og fer allan daginn.

Fuglafræðingur sem NRK ræðir við, Rune Aae, segir Paulsen mega bíða lengi, tæpan mánuð, ætli hann sér að þrauka þar til ungarnir koma í heiminn án þess að gerast brotlegur við lög. „Mávurinn er alltaf í vandræðum með að finna sér dvalarstað. Fólk ætti að reyna að sýna honum meiri skilning á þeim vettvangi, þá væri minna um svona árekstra,“ segir Aae.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert