„Ruslahaugur ríkari landa“

Innflutningur á plastúrgangi til Malasíu hefur þrefaldast á tveimur árum …
Innflutningur á plastúrgangi til Malasíu hefur þrefaldast á tveimur árum og hyggjast yfirvöld nú leggja blátt bann við innflutningnum. AFP

Yfirvöld í Malasíu hafa ákveðið að grípa til sinna ráða og senda rusl sem sent hefur verið til landsins aftur til síns heima í tilraun til þess að sporna við því að landið sé notað sem ruslahaugur ríkari landa.

„Því sem íbúar Bretlands halda að þeir séu að senda til endurvinnslu er raunar bara varpað á okkur,“ segir You Bee Yin, umhverfismálaráðherra Malasíu.

Hún hefur fyrirskipað að þúsundum tonna af innfluttu rusli verði skilað aftur, enda sé Malasía orðin eins konar ruslahaugur fyrir ríkari lönd heims. „Ef rusl er sent til Malasíu skilum við því aftur miskunnarlaust.“

Innflutningur á plastúrgangi til Malasíu hefur þrefaldast á tveimur árum og hyggjast yfirvöld nú leggja blátt bann við innflutningnum.

„Malasía og önnur þróunarlönd hafa rétt á fersku lofti, hreinu vatni, sjálfbærum auðlindum og hreinu umhverfi til að búa í rétt eins og íbúar þróuðu ríkjanna.“

Ekki er langt síðan Kína tók fyrir innflutning á rusli frá öðrum löndum, en umhverfissérfræðingum líst ekki á blikuna og segja að nú muni rusl verða flutt til enn fátækari landa sem hafi lakari umhverfisstaðla. Fyrir vikið verði eyðing rusls óöruggari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert