Ákæra gegn Trump kom ekki til greina

Í skýrslunni er hvorki staðfest né hrakið að Donald Trump …
Í skýrslunni er hvorki staðfest né hrakið að Donald Trump hafi framið embættisbrot. AFP

„Rússar reyndu að hafa áhrif á kosningarnar okkar og það er eitthvað sem allir Bandaríkjamenn ættu að láta sig varða.“

Þetta voru lokaorð yfirlýsingar Roberts Mueller um tveggja ára rannsókn hans á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016. Um var að ræða fyrsta skiptið sem Mueller tjáði sig opinberlega um málið síðan skýrsla hans var gefin út í apríl.

Í skýrslunni er hvorki staðfest né hrakið að Donald Trump hafi framið embættisbrot. Í yfirlýsingu sinni sagði Mueller þó skýrt og skorinort að „ef hann teldi að forsetinn hefði augljóslega ekki framið glæp, þá hefði það verið tekið fram“.

Rannsókn Mueller á málinu hefur leitt til 35 ákæra. Þeirra á meðal eru ákærur gegn starfsfólki kosningaherferðar Trump, en í yfirlýsingu sinni í dag sagði Mueller að ekki hafi komið til greina að ákæra Trump, því samkvæmt reglum dómsmálaráðuneytisins sé ekki leyfilegt að ákæra sitjandi forseta fyrir glæp.

Mueller sagðist ekki telja að viðeigandi væri fyrir hann að tjá sig frekar um skýrsluna, enda tali 448 blaðsíðna skýrslan sínu máli. Hann tók því ekki við spurningum blaðamanna að yfirlýsingu sinni lokinni.

Umfjöllun CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert