Tákn um helstu ógnir heimsins

Verk Guo O Dong, The Persistence of Chaos.
Verk Guo O Dong, The Persistence of Chaos.

Listaverk kínverska listamannsins Guo O Dong, The Persistence of Chaos, var selt á rúmlega 1,3 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 162 milljóna króna, á uppboði á netinu í New York. Verkið er einfalt, svört Samsung-fartölva hlaðin sex vírusum. Tákn um helstu ógnirnar sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Þegar horft er á listaverkið er í raun ekkert sérstakt að sjá, 2008 10-inch Netbook, með stýrikerfinu úrelta Windows XP. En ef skoðað er nánar má sjá að á harða disknum er að finna hættulegustu vírusana sem hafa tröllriðið netheimum undanfarna áratugi. I LOVE YOU frá 2000, Sobig frá 2003, MyDoom (2004), DarkTequila (2013), BlackEnergy (2015) og sá nýjasti en um leið sá skaðlegasti WannaCry frá því fyrir tveimur árum.

Þessir sex Trójuhestar, ormar og vírusar sem hefur verið hlaðið inn í minni tölvunnar hafa valdið skaða sem metinn er á um 95 milljarða Bandaríkjadala, að sögn Guo en hann starfar sem netlistamaður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert