Þrælkaður, barinn, vannærður og svo þjakaður af þorsta að hann safnar vatni til að drekka. Þetta er aðeins annað umhverfi en Rahmatullah hafði verið lofað þegar hann yfirgaf heimalandið í von um betra líf. Þess í stað biðu hans enn verri aðstæður en hann hefði getað ímyndað sér að væru til.
Samkvæmt AFP-fréttastofunni er þetta ekkert einsdæmi þegar kemur að fiskiðnaðinum í heiminum. Þar sé vinnuþrælkun útbreidd að sögn þeirra sem starfa við varnir gegn vinnumansali. Þeir vara við því að neytendurnir viti ekki um raunverulegan kostnað á bak við sjávarafurðirnar sem þeir kaupa í verslunum og á veitingahúsum.
Þolendur vinnumansals eiga á hættu að fá ekkert greitt fyrir vinnu sína, mikla yfirvinnu, ofbeldi, áverka og í einhverjum tilvikum banvænar aðstæður. Indónesía og Suðaustur-Asía eru helstu uppsprettur slíks vinnumansals þar sem fátæku fólki er heitið góðum launum við sjómennsku.
Rahmatullah var sagt að hann væri á leið til Perú á sjóinn og hann fengi 400 Bandaríkjadali, 50 þúsund krónur, á mánuði í laun auk kaupauka tengdan aflabrögðum. Indónesísk starfsmannaleiga sendi hann til Sómalíu þar sem hann eyddi níu mánuðum um borð í kínverskum togara. Vinnudagurinn var langur eða 18 tímar á dag.
„Mér leið eins og þræl,“ segir þessi 24 ára gamli maður í samtali við AFP-fréttastofuna. „Kínverska áhöfnin fékk hreint vatn að drekka á meðan við hinir þurftum að safna vatni sem féll til frá loftkælingunni. Við vorum oft barðir ef við veiddum ekki nægjanlega vel og jafnvel þó svo við værum veikir,“ segir Rahmatullah.
Rahmatullah er einn 40 Indónesa sem gera kröfur um bætur eftir að hafa verið tældir með lygum af starfsmannaleigunni PT Maritim Samudera. Einhverjir voru sendir um borð í togara við Japan en aðrir til Sómalíu. Mennirnir eiga það sameiginlegt að hafa verið barðir og beittir andlegu sem og öðru líkamlegu ofbeldi, svelti og ofþornun. Tveir félagar Rahmatullah úr áhöfninni létust úr hungri og þorsta auk örmögnunar.
Flestir þeirra lifðu á hrísgrjónum og káli eða soðnum fiski. „Maturinn var skelfilegur,“ segir Arianus Ziliwu, 21 árs sjómaður sem var sendur til Japans. „Svefnaðstaðan var ekki gerð fyrir fólk,“ bætir hann við og sýndi fréttamanni AFP myndskeið sem tekin voru á síma af bælum á farmrými skipsins. Engar dýnur aðeins bæli. Mönnum var bjargað eftir að hafa náð að senda neyðarskilaboð þegar þeir fengu aðgang að neti smástund.
Allir 40 eiga inni þúsundir Bandaríkjadala í vangoldnum launum samkvæmt yfirlýsingum þeirra hjá lögreglu. Á sama tíma og staða sjávarútvegsfyrirtækja fer versnandi, einkum vegna ofveiði, hafa þau gripið til þess ráðs að ráða flóttamenn, sem eiga erfitt með að verja sig, til starfa þannig að útgerðirnar skili eigendum sínum áfram arði.
„Ef þú vilt fá ódýran túnfisk eða smokkfisk þá er leiðin sú að nota ódýrt vinnuafl,“ segir Arifsyah M. Nasution, sem starfar fyrir Grænfriðunga í Indónesíu.