Það er tímabært að mexíkósk yfirvöld taki landið til baka frá fíkniefnahringjunum. Þetta sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti á Twitter í dag, en í gær boðaði hann álagningu tolla á allar vörur frá Mexíkó og sagði það vera lið í að draga úr komum flóttafólks yfir landamærin.
Fullyrti Trump ennfremur í dag að nýju tollarnir myndu hjálpa til við að stöðva flóð fíkniefna yfir landamærin.
In order not to pay Tariffs, if they start rising, companies will leave Mexico, which has taken 30% of our Auto Industry, and come back home to the USA. Mexico must take back their country from the drug lords and cartels. The Tariff is about stopping drugs as well as illegals!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 31, 2019
„Mexíkó verður að taka landið til baka frá fíkniefnabarónum og fíkniefnahringjum. Tollarnir snúast um að stöðva fíkniefnin og ólöglega innflytjendur,“ sagði Trump á Twitter.
5% tollur verði lagður á allan innflutning frá Mexíkó frá og með 10. júní og munu tollarnir svo hækka hægt og rólega þangað til „vandamálið með ólöglega innflytjendur verður leyst“ að sögn forsetans.
Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó hefur hins vegar sagt að stjórnvöld þar í landi muni ekki láta þetta hafa áhrif á sig. Hefur BBC eftir Obrador að slagorð Trumps „Bandaríkin í fyrsta sæti“ sé rökvilla og að mikilvægara sé að viðhalda almennu réttlæti en landamærum.
Þá kvaðst hann hafa skipað utanríkisráðherra Mexíkó að halda til Washington í dag. „Ég ítreka að við ætlum ekki að falla í gildru ögrana. Við ætlum að bregðast skynsamlega við,“ sagði Obrador.