Teknir af lífi eftir viðræðuslit

Kim Hyok Chol sést fyrir miðju (með blátt bindi).
Kim Hyok Chol sést fyrir miðju (með blátt bindi). AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu tóku sérlegan sendimann ríkisins gagnvart Bandaríkjunum af lífi í kjölfar þess að viðræður leiðtoga landsins, Kim Jong-un og forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, runnu út í sandinn. Auk hans voru fjórir aðrir háttsettir embættismenn teknir af lífi.

Þetta kemur fram í frétt í dagblaði, Chosun Ilbo, í Suður-Kóreu dag. Þar segir að Kim Hyok Chol, sem lagði grunninn að fundinum í Hanoi í Víetnam og kom til fundarins í einkalest leiðtogans, hafi verið tekinn af lífi af aftökusveit fyrir að hafa svikið leiðtogann og að hafa snúist á sveif með Bandaríkjunum á leiðtogafundinum.

Kim Hyok Chol var tekinn af lífi í mars á Mirim-flugvellinum ásamt fjórum háttsettum embættismönnum í utanríkisráðuneytinu í kjölfar rannsóknar, segir í frétt blaðsins. Hinir embættismennirnir eru ekki nafngreindir.

Kim Hyok Chol var starfsbróðir Stephen Biegun sem stýrði undirbúningi leiðtogafundarins fyrir hönd Bandaríkjanna í Hanoi í febrúar.

Suðurkóreska ráðuneytið sem fer með samskipti á Kóreuskaganum neitaði að tjá sig um fréttina. Áður hafa slíkar fréttir í fjölmiðlum S-Kóreu ekki alltaf reynst réttar og verið leiðréttar síðar. 

Í sömu frétt segir að túlkur Kim Jong-un, Shin Hye Yong, hafi verið send í fangabúðir fyrir mistök sem hún gerði á leiðtogafundinum. Henni mistókst að þýða nýtt tilboð Kim þegar Trump lýsti því yfir að ekki yrði um neitt samkomulag að ræða og gekk í burtu frá samningaborðinu.  

Fundinum í Hanoi lauk án þess að leiðtogarnir undirrituðu samning eða yfirlýsingu eins og vonir stóðu til. Nokkrir sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu töldu að viðræðurnar hefðu ekki verið til einskis þrátt fyrir þessa niðurstöðu og sögðu að enginn samningur væri betri en slæmur. 

Síðan þá hefur N-Kórea aukið þrýsting á samskipti ríkjanna meðal annars með tveimur eldflaugatilraunum nú í maí.

Auk Shin var Kim Yong Chol, sem stýrði kjarnorkuviðræðunum fyrir hönd N-Kóreu við utanríkisráðherra, Mike Pompeo, sendur í þrælkunarbúðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert