Yfir 50 gráðu hiti mældist á Indlandi

Fólk dýfir sér ofan í Ana Sagar-vatnið í borginni Ajmer …
Fólk dýfir sér ofan í Ana Sagar-vatnið í borginni Ajmer í Rjasthan-fylki á Indlandi. AFP

Í hitabylgjunni sem nú ríður yfir Indland mældist hitinn yfir 50 gráður á norðanverðu landinu. Vatn er af skornum skammti bæði fyrir menn og búfénað og nú þegar hafa margir látist af völdum hitaslags. 

Hitinn mældist 50,6 gráður á celsíus í borginni Churu í Rajasthan-fylki, samkvæmt veðurstofu Indlands. Þar fór hitinn alls staðar yfir 47 gráður. Þetta er nokkuð nálægt indverska hitametinu sem féll árið 2016 en þá mældist hitinn 51 gráða í borginni Phalodi í Rajasthan-fylki. Hitabylgjan er ekki í rénun og varað hefur verið við því að í sjö fylkjum í landinu muni sambærilegar hitatölur ríkja næstu vikuna. 

Í Nýju-Delí er í gildi rauð viðvörun vegna hitans en þar fór hann upp í 46 gráður á celsíus. Íbúum hefur verið ráðlagt að halda sig inni, einkum þegar sólin er hæst á lofti og hitinn er mestur. 

Í fjölmörgum stærstu borgum landsins er þegar orðinn vatnsskortur eða hann yfirvofandi. Ár og vötn eru farin að þurrkast upp og dæmi eru um að bændur brynni dýrum sínum þriðja hvern dag. Í tilraun sinni til að spara vatn hefur fólk brugðið á það ráð að hætta að þvo föt sín. 

Regntímabilið er þegar viku seinna á ferðinni en venju samkvæmt. Rigning er ekki í kortunum fyrr en 6. júní en þá nær hún eingöngu á syðsta odda landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert