Lærði að lesa og hafði betur

AFP

„Ég kenndi sjálfum mér að lesa í fangelsi. Síðan höfðaði ég skaðabótamál á hendur kerfinu og hafði betur,“ segir Andre Jacobs, 37 ára fangi í Bandaríkjunum, í grein á vefnum Marshall Project.

Jacobs verður látinn laus í desember 2021 en hann fór fyrst í fangelsi fimmtán ára gamall. Hann segir að margir sem hann þekki hafi ekki þorað að viðurkenna að þeir væru ólæsir en hann hafi ekki skammast sín fyrir það og tekið málin í sínar hendur. „Fyrsta árið mitt í fangelsi las ég sömu bókina, The Last Don, aftur og aftur í níu mánuði,“ segir hann í greininni. 

AFP

Eftir að hafa lært að lesa hóf hann nám í fangelsinu og eitt leiddi af öðru. Jacobs dró yfirvöld aftur og aftur fyrir dóm þar sem hann krafðist bóta og hafði hundruð þúsunda Bandaríkjadala upp úr krafsinu. Hann segir að þetta geti hann þakkað öllum þeim tíma sem hann eyddi yfir lagabókum og lagatextum. 

„Ég höfðaði fyrsta dómsmálið þegar ég var 19 ára gamall. Ég hafði verið settur í einangrun og einn fangavörður lék sér að því að ganga fram hjá klefanum mínum og sparka í hurðina, kalla mig N (negra) og lék sér að matnum mínum. Eitt skiptið dró hann upp kylfuna og barði mig með henni. 

Einn fanganna á sama gangi sendi mér miða sem á stóð: Gerðu þér grein fyrir því að þetta er brot á réttindum þínum. Ég get aðstoðað þig ef þú vilt. Hann sagði mér að byrja að skrá allt niður sem gerðist og útvega mér bókina „The Prisoners’ Self-Help Litigation Manual,“ (Handbók í sjálfsvörn fanga) en hún er skrifuð fyrir byrjendur og gerir þér mögulegt að persónugera fyrirframgefin lögfræðileg málefni,“ segir Jacobs.

Jacobs segir að þetta hafi tekið á í fyrstu, að læra löggjöf tengda fangelsismálum og stefnur í málefnum fanga en hann hafi í raun álitið að fangavörðurinn gæti drepið hann. Þannig að þetta var spurning um líf eða dauða, segir hann. 

Að sögn Jacobs liðu mánuðir þar sem hann las ekkert annað en dómsmál og skáldsögur John Grisham.

Nú meira en 15 árum síðar hefur hann farið með á annan tug mála fyrir dóm og haft tæplega hálfa milljón dala upp úr krafsinu í tveimur málum. Hið fyrra var skaðabótamál sem hann höfðaði í kjölfar þess að þrír verðir eyðilögðu öll skjöl hans til að hefna sín á honum. Í undirrétti voru honum dæmdir 185 þúsund dalir í miskabætur en áfrýjunardómstóll lækkaði bæturnar síðar í 75 þúsund dali (9,3 milljónir króna).

Síðara málið er frá árinu 2017, þar voru honum dæmdir 270 þúsund dalir í bætur fyrir ofbeldi tengt öðru máli frá árinu 2008. Áfrýjunardómstóll lækkaði síðan bæturnar í 190 þúsund dali (24 milljónir króna). 

Sjá fréttaumfjöllun um dómsmálið

Að sögn Jacobs hefur lífið reynst honum besti skólinn í dómskerfinu. Hann hafi þurft að sjá að mestu um sig frá sex ára aldri, hvort sem það var á sjúkrahúsum eða á götum úti. Sem barn var hann greindur með áfallastreituröskun vegna allrar misnotkunarinnar sem hann varð fyrir og upplifði á heimilinu. Hann hafi alltaf þurft að reiða sig á sjálfan sig og enga aðra. Réttarkerfið er, líkt og lífið sjálft, púsluspil sem þarf að raða saman. „Ég varð að læra hvenær ég átti að kalla ég mótmæli og hvað ég átti að segja þegar ég var spurður út í grundvallaratriðin í mótmælum mínum.“

Jacobs segir að einnig hafi hann lært að það skipti máli að læra að lesa réttarsalinn, það er kviðdóminn, enda sé eina ástæðan fyrir því að hann sé enn á lífi sú að hann hafi lært af reynslunni að skynja yfirvofandi hættu og forðast hana. 

Á löngum ferli í réttarsalnum hefur Jacobs upplifað margt. Til að mynda þurfti hann að vera með svonefnd raflostbelti í fyrsta málinu sem hann vann fyrir rétti. Rafstraumur í slíku belti er 50 þúsund vött. Þetta hafi ekki bara verið óþægilegt því það þrýsti stöðugt á mænuna, heldur eru dæmi um galla í beltunum. Það hefði getað þýtt að Jacobs hefði fengið raflost í bakið. 

Í næsta máli fóru fangaverðir fram á að festa beltið á Jacobs en dómarinn sagðist ekki sjá neina ástæðu til þess. Einn af fangavörðunum sagði að hann væri bara að fylgja fyrirskipunum og til þess að fjarlægja beltið þyrfti hann að hringja fjölmörg símtöl og fá sérstakt leyfi til þess. 

„Dómarinn leit á hann og var hálfundrandi á svipinn. Þú hringir. Hann verður ekki með beltið. Það er fyrirskipun,“ segir Jacobs þegar hann lýsir viðbrögðum dómarans í þessu máli.

Andre Jacobs hefur setið inni meira og minna síðan hann var unglingur en sér nú fram á að hefja nýtt líf eftir rúm tvö ár. Hann er búinn að kaupa sér eign í Pennsylvaníu sem bíður hans þegar hann losnar út að nýju. 

Umfjöllun Vice um Jacobs og baráttu fanga innan fangelsa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert