„Hrottafengin árás“ hersins fordæmd

Læknar segja að yfir 30 manns hafi látið lífið í …
Læknar segja að yfir 30 manns hafi látið lífið í aðgerðum hersins gegn mótmælendum í Kartúm í dag. AFP

Súdanski herinn lét til skarar skríða gegn mótmælendum í höfuðborginni Kartúm í dag og eru þrjátíu mótmælendur hið minnsta sagðir hafa látið lífið. Hundruð mótmælenda til viðbótar særðust í átökum við herinn.

Aðgerðir hersins hafa verið fordæmdar á alþjóðavísu og Antóníó Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kallar eftir sjálfstæðri rannsókn á atburðum dagsins. Bretar og Þjóðverjar hafa óskað eftir því að staða mála í Súdan verði rædd í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Mót­mæli hafa staðið yfir í Súdan undanfarna mánuði, en mótmælendur krefjast þess meðal annars að borg­ara­leg stjórn taki við í land­inu, en bráðabirgðastjórn hers­ins hef­ur verið við völd frá því að Omar al-Bashir hrakt­ist frá völd­um í apríl.

Mótmælendur höfðu setið vikum saman utan við höfuðstöðvar hersins í Kartúm, en í dag ákvað súdanski herinn að leysa upp mótmælin. Þungvopnaðir hermenn létu til skarar skríða og hefur AFP fréttastofan það eftir læknum á svæðinu að fleiri en þrjátíu einstaklingar hafi látist í aðgerðunum, þar á meðal einn átta ára drengur.

Mótmælendur setja hér upp vegartálma til þess að varna hersveitum …
Mótmælendur setja hér upp vegartálma til þess að varna hersveitum för um miðborg Kartúm í dag. AFP

Forkastanlegt skref sem auki muni á ofbeldi

Framganga hersins hefur verið fordæmd. Tibor Nagy, undirráðherra Afríkumála í Bandaríkjastjórn, kallar atburði dagsins „hrottafengna árás“ hersins gegn mótmælendum.

Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fordæmir framgöngu herstjórnarinnar og segist sleginn yfir fregnum af því að hermenn hafi hleypt af byssum sínum inni á spítala í höfuðborginni.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, segir að aðgerðir súdanska hersins í dag hafi verið „forkastanlegt skref sem mun einungis auka á pólunina og ofbeldið“ og á því beri herstjórnin alla ábyrgð.

Afríkubandalagið tekur undir kröfur Sameinuðu þjóðanna um að ráðist verði í tafarlausa og gegnsæja rannsókn á ofbeldisverkum dagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert