„Aðgerðaleysi hans kostaði mannslíf“

Scot Peterson var á vakt þegar fyrr­ver­andi nem­andi við skól­ann …
Scot Peterson var á vakt þegar fyrr­ver­andi nem­andi við skól­ann skaut 14 nem­end­ur og þrjá kenn­ara við skól­ann til bana á Valentínusardaginn, 14. febrúar, í fyrra. AFP

Lögreglumaður sem gegndi starfi vopnaðs öryggisvarðar í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Parkland í Flórída, þar sem 14 nemendur og þrír kennarar voru skotnir til bana í árás í fyrra, hefur verið handtekinn og ákærður fyrir aðgerðaleysi.

Scot Peterson var á vakt þegar fyrr­ver­andi nem­andi við skól­ann skaut 14 nem­end­ur og þrjá kenn­ara við skól­ann til bana á Valentínusardaginn, 14. febrúar, í fyrra.    

Þegar skothríðin hófst stóð Peterson aðgerðalaus fyrir utan skólann. Í rannsókn lögreglu kemur fram að Peterson haldi því fram að hann hafi ekki vitað hvaðan skothvellirnir komu. Í gögnum lögreglu kemur fram að Peterson „gerði ekki nokkurn skapaðan hlut“ meðan á árásinni stóð.

Skömmu eftir árásina kallaði Donald Trump Bandaríkjaforseti Peterson „heigul“ fyrir að bregðast ekki við.

„Aðgerðaleysi hans kostaði mannslíf, án efa,“ segir Rick Swearinger, yfirmaður lögreglunnar í Flórída.

Peterson sagði starfi sínu lausu stuttu eftir árásina þegar lögregluyfirvöld höfðu birt myndskeið þar sem Peterson sést bíða fyrir utan skólann á meðan árásin átti sér stað. Peterson hefur nú verið ákærður í ellefu liðum. Sjö liðir ákærunnar snúa að vanrækslu á börnum, þrír að vítaverðu gáleysi og einn að því að bera ljúgvitni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert