Danska ríkisstjórnin fallin

Ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen, formanns Venstre og forsætisráðherra, er fallin …
Ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen, formanns Venstre og forsætisráðherra, er fallin samkvæmt útgönguspá. AFP

Útgönguspá vegna dönsku þingkosninganna er nokkur skellur fyrir Mette Fredriksen, formann danska Jafnaðarmannaflokksins, að því er fram kemur í umfjöllun danska ríkissjónvarpsins DR.

Flokkur hennar fær 25,3% fylgi samkvæmt spánni sem er 1 prósentustigi minna en í síðustu kosningum og yrði næstversta niðurstaða sem flokkur hennar hefur fengið í 115 ár. Kannanir hafa sýnt mun meira fylgi við flokkinn.

Fredriksen getur þó verið ánægð með að ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra, virðist fallin, en rauða kosningabandalagið fær 90 þingsæti samkvæmt útgönguspánni á móti 75 þingsætum sem bláa bandalag Rasmussen hlýtur.

Misjafnt gengi bláa bandalagsins

Flokkur Rasmussens, Venstre, eykur hins vegar fylgi sitt um 1,4% samkvæmt útgönguspánni og fær 20,9%. Danski þjóðarflokkurinn fær aðeins 9,8% sem er 11,3 prósentustigum minna en í síðustu kosningum.

Frjálslyndabandalagið fær 3% sem er 4,5 prósentustigum minna en í síðustu kosningum á meðan Íhaldsflokkurinn 5,9% sem er 2,5 prósentustigum meira en síðast. Kristilegi lýðræðisflokkurinn mælist í spánni með 2,3% fylgi sem þýðir að þeir ná þeim 2% sem þarf til þess að komast á þing og mun það verða í fyrsta sinn síðan 2005 sem flokkurinn nær þingsæti.

Vinstriflokkarnir auka fylgi sitt

Sameiningarlistinn eykur fylgi sitt um 1% frá síðustu kosningum og fær því 8,8% sem er besti árangur í sögu flokksins. Þá hlýtur Sósíalíski þjóðarflokkurinn 7,4% sem er 3,2% meira en síðast og Radikale venstre mælist með 8,8% fylgi í spánni sem er 4,2% betra en þegar var kosið síðast.

Mette Fredriksen hitti kjósendur í dag.
Mette Fredriksen hitti kjósendur í dag. AFP

Flokkar sem ekki eru í fylkingunum tveim gengur misjafnlega vel, en Græningjar fá 3,3% í útgönguspánni sem er 1,5% minna fylgi en í síðustu kosningum. Nýi borgaraflokkurinn sem ekki hefur tekið þátt áður fær 2% sem er á mörkum þess að ná þingsæti.

Flokkurinn Hörð lína sem hefur verið mikið gagnrýndur fyrir öfgakennda stefnu í innflytjendamálum mælist í spánni með 1,8% fylgi og því óljóst hvort flokknum takist að komast á danska þingið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert