Börn og óléttar konur fari í blóðprufu

Ljósmynd af eyðileggingunni á þaki Notre-Dame kirkjunnar.
Ljósmynd af eyðileggingunni á þaki Notre-Dame kirkjunnar. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í París hafa hvatt barnafjölskyldur og þungaðar konur, búsettar í nágrenni Notre Dame-dómkirkjunnar, að láta mæla magn blýs í blóði sínu í kjölfar eldsvoðans í kirkjunni 15. apríl.

Ákall stjórnvalda kemur í kjölfar þess að óvenjulega hátt hlutfall blýs mældist í blóði barns sem er búsett í nánd við kirkjuna, en eðlilegt magn blýs í blóði eru 50 míkrógrömm á hvern lítra.

Nokkur hundruð tonn af blýi á kirkjuþakinu og í kirkjuturninum bráðnuðu í eldsvoðanum og hafa yfirvöld staðfest að talsvert magn blýs dreifðist út í andrúmsloftið.

Fram kemur í yfirlýsingu stjórnvalda að verið sé að kanna hvort að blýmagnið í blóði barnsins stafi af einhverju öðru en eldsvoðanum. Til varúðarráðstöfunar eru fjölskyldur með börn undir 7 ára aldri og þungaðar konur, búsettar á Ile de la Cite, beðnar um að að fara í blóðprufu svo kanna megi blýmagn í blóði.

Þá kemur fram í yfirlýsingunni að almenningi stafi engin almenn hætta af ástandinu en að ákveðnum svæðum hafi verið lokað á meðan íbúum þeirra eru veittar leiðbeiningar um hvernig skuli hreinsa svæðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert