Að mála skrattann á veginn

Eitt margra umdeildra vegtollahliða í Ósló. Mála andstæðingar veggjalda í …
Eitt margra umdeildra vegtollahliða í Ósló. Mála andstæðingar veggjalda í Noregi skrattann á veginn eða eru veggjöldin í raun og sannleika sagt gæluverkefni borgar- og bæjarfulltrúa sem leggjast þyngst á þá sem lægst hafa launin? Þeirri spurningu verður hugsanlega svarað í sveitarstjórnarkosningum í september. Spyrjum að leikslokum. Ljósmynd/Wikipedia.org

Vegtollar í Noregi hafa verið býsna heitt umræðuefni síðustu misseri og hafa framboðslistar undir nafninu „Folkeaksjonen nei til mer bompenger“ (Þjóðarátakið nei við frekari vegtollum) skotið upp kollinum síðustu ár og munu í sveitarstjórnarkosningunum í september í haust bjóða fram í ellefu sveitarfélögum Noregs og til fjögurra fylkisþinga.

Með breytingunni í Ósló 1. júní, þegar 52 ný vegtollahlið voru tekin í gagnið, er svo komið að þrjár af hverjum fjórum ökuferðum í höfuðborginni munu kosta vegtolla og greiða nú eigendur rafmagnsbíla í fyrsta sinn tolla þessa frá og með síðustu breytingunni, þó mun minna en eigendur bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, en þar greiða eigendur díselbíla mest en bensínbíla nokkrum krónum minna.

Vegtollarnir hækkuðu verulega 1. júlí 2018, þá þó með færri greiðsluhliðum, en eftir þá hækkun greiddi ökumaður fólksbíls með díselvél 60 norskar krónur, tæpar 850 íslenskar, fyrir að aka gegnum vegtollahlið á annatíma sem telst frá klukkan 06:30 til 09:00 að morgni og milli 15:00 og 17:00 síðdegis virka daga. Hafi ökumaður díselbílsins náð að vera á ferð utan annatíma var gjald hans 50 krónur, 707 íslenskar. Algeng sjón á Ring 3 í Ósló klukkan 06:29 á morgnana eru ökumenn vel á öðru hundraðinu að reyna að ná gegnum tollahliðið við Ullevål áður en annatímagjaldið skellur á.

Hlið Mordor

Ökumenn stórra bifreiða, yfir 3,5 tonnum að leyfðri heildarþyngd, skiptust samkvæmt eldra kerfinu niður í fjóra verðflokka eftir aldri bifreiðar og eldsneyti, greiddu þá minnst 104 krónur, 1.471 íslenska, en mest 198, eða 2.801 íslenska, væru þeir í mesta sóðaflokknum eldsneytislega séð og á ferð á annatíma. Ekki þarf að fjölyrða um að atvinnubílstjórar ráku upp ramakvein þegar þessi nýja gjaldskrá tók gildi, en margir þeirra voru þó þannig settir að hafa vinnuveitanda sem greiddi þeirra leið á götum Óslóar.

Algeng sjón í Ósló rétt fyrir klukkan 06:30 á morgnana …
Algeng sjón í Ósló rétt fyrir klukkan 06:30 á morgnana eru ökumenn á öðru hundraðinu að reyna að koma sér gegnum vegtollahlið á Ring 3 og víðar áður en háannatímagjaldið skellur á. Ljósmynd/Fjellinjen

Vegtollahlið á leið inn til Óslóar á E6-brautinni austan til í borginni hefur löngum þótt óvinsælt svo sem sjá má sé smellt á staðsetningu (check in) á Facebook í námunda við hliðið, en þá kemur upp staðsetningin „Gates of Mordor“ sem kunnugleg er úr Hringadróttinssögu Tolkiens og einhver spaugsamur Facebook-notandi hefur fest við hliðið.

Lægra gjald, fleiri gjaldendur

Með nýju tollahliðunum 52 sem tekin voru í notkun 1. júní lækkar gjaldið umtalsvert og fjórflokkakerfi bifreiða yfir 3,5 tonnum er afnumið, en á móti kemur að fleiri borga, þar af rafmagnsbílaeigendur í fyrsta sinn (frá fjórum og upp í tíu norskar krónur) auk þess sem nú þurfa allir ökumenn sem koma til Óslóar frá nágrannafylkinu Akershus að greiða, þó aðeins á leið inn í Ósló, ekki út aftur, enda ein af rökunum á bak við vegtollana að draga úr umferð í þéttbýli og beina íbúum í átt að almenningssamgöngum og hjólreiðum.

Eining var um nýju tollahliðin með öllum flokkum í borgarstjórn Óslóar, nema Framfaraflokknum og Rauðum og á sá fyrrnefndi nú í vök að verjast í sjálfu ríkisstjórnarsamstarfinu vegna afstöðu flokksins gegn vegtollum. Komu hópar fólks saman og mótmæltu í Ósló um mánaðamótin, hvergi þó fjölmenni. Einn hópurinn var saman kominn við kirkjugarðinn Østre gravlund við Helsfyr, en nýtt tollahlið þar í grenndinni gerir það að verkum að þeir sem koma akandi að garðinum til að vitja látinna ástvina eru nú rukkaðir um vegtolla í fyrsta sinn.

Einna hatrammastar hafa deilurnar þó orðið utan höfuðborgarinnar og má þar líklega setja Stavanger og nágrenni í Rogaland-fylki ofarlega á blað en þar stóðu andstæðingar vegtolla fyrir fjölmennum mótmælum í fyrra og lokuðu fjölförnum umferðaræðum svo við handalögmálum lá. Þá hefur bæjarstjóri sveitarfélagsins Klepp í Rogaland, Ane Mari Braut Nese, setið undir linnulitlum hótunum, þar á meðal líflátshótunum, eftir að hún greiddi atkvæði með því að vegtollahlið yrðu sett upp þar í bænum og varð ungur sonur hennar auk þess fyrir líkamsárás þar sem hann var tekinn hálstaki og sagt að móðir hans hefði verra af sæi hún ekki að sér.

Meint skotárás á heimili bæjarfulltrúa

Anna Elisa Tryti, bæjarfulltrúi í Bergen, þar sem vegtollar voru hækkaðir verulega í fyrra, hefur einnig mátt sitja undir linnulausum hótunum bréfleiðis sem í SMS-skilaboðum og rannsakar lögregla nú gat á gluggarúðu á heimili hennar sem talið er vera eftir byssukúlu. Tryti hefur meðal annars verið beðin bréfleiðis um að segja af sér og helst fremja sjálfsvíg. Hún vildi ekki tjá sig um málið við mbl.is þegar eftir því var leitað og sagði nóg á fjölskylduna lagt.

Gagnrýni vegtollaandstæðinga hefur meðal annars beinst að því að tollarnir, sem nema ellefu milljörðum norskra króna á ári á landsvísu, tæplega 157 milljörðum íslenskra króna, fari alls ekki í úrbætur á norskum vegum heldur séu þeir notaðir í viðhald hjólreiða- og göngustíga auk þess sem gárungar hafa haldið því fram að helmingur fjárins fari í rekstur hinna rafrænu vegtollahliða en sú fullyrðing er algjörlega úr lausu lofti gripin. Spyrja þá margir hvers vegna norskir bifreiðaeigendur eigi að borga fyrir eitthvað sem í besta falli mætti kalla gæluverkefni sveitarstjórna víða um land.

„Það er einmitt sú spurning sem við höfum spurt án þess að hafa fengið við henni nokkur vitræn svör,“ segir Elisabeth Velle Andersen, sem skipar fjórða sætið á lista vegtollaandstæðinga í Ósló og er auk þess upplýsingafulltrúi flokksins, í samtali við mbl.is.

„Okkar sjónarmið er fyrst og fremst að hlustað sé á þjóðina. Við erum hundleið á því að skollaeyrunum sé skellt við okkur, venjulegu fólki sem ástandið er tekið að þyngja svo mjög að við sjáum okkur tilneydd að blanda okkur í stjórnmál,“ segir Andersen. „Þessi mótmæli hafa ekkert að segja, það er einfaldlega ekki hlustað á okkur. Okkar eina von til að láta rödd okkar heyrast er framboð.“

Bifreiðaeigendur skyldu síst greiða

Hún segir upplifun frambjóðenda flokksins í Ósló vera þá að vegtollar taki orðið bókstaflega of mikinn toll, þeir séu einfaldlega orðnir bifreiðaeigendum fullþungur kross að bera. „Margir eru háðir bílnum, fólk á við ýmis heilsufarsvandamál að stríða og sumir reka fyrirtæki sem verða fyrir þungum búsifjum vegna útgjalda tengdum vegtollum,“ segir Andersen og bætir því við að bifreiðaeigendur séu síðasti hópurinn sem eigi að greiða veggjöld.

„Bifreiðaeigendur greiða þegar frumskóg gjalda, skráningargjald, umskráningargjald, bifreiðagjald, aðflutningsgjöld, þungaskatt, kolefnisgjald og ég veit ekki hvað. Nánast ekkert af þessu fé rennur til vegagerðar,“ segir Andersen. Hún segir alla þjóðina í raun nota vegina, eftir þeim séu vörur fluttar til kaupenda, eigi þeir bíl eður ei. „Lögreglan notar vegina og almenningssamgöngur fara eftir þeim, starfsemi sem er í þágu fjölda fólks sem ekki á endilega bíl og greiðir því ekki veggjöld,“ segir hún. „Þeir sem nú halda um stjórnartauma Óslóar segjast vilja losna við 33 prósent af einkabílum og það ætla þeir að gera með veggjöldum.  Á hverjum bitnar það öðrum en þeim sem minnst hafa milli handanna? Launalægsta fólkinu sem neyðist til að hvíla bílinn vegna svimandi hárra vegtolla og koma sér langa leið til vinnu með almenningssamgöngum sem eru bara ekki nærri því nógu góðar fyrir fólk sem vinnur á útjöðrum borgarinnar.“

Lan Marie Nguyen Berg, borgarfulltrúi græningja, strauk tekjuminni íbúum Óslóar …
Lan Marie Nguyen Berg, borgarfulltrúi græningja, strauk tekjuminni íbúum Óslóar rækilega andhæris í fyrra þegar hún sagði i viðtali við NRK að fólk „ætti bara að kaupa sér rafmagnsbíla“. Frá 1. júní 2019 greiða eigendur þeirra í fyrsta sinn vegtolla í Ósló. Ljósmynd/Miljøpartiet de grønne

Lan Marie Nguyen Berg, borgarfulltrúi græningja (Miljøpartiet de grønne, MDG) og fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd Óslóar, lét hafa eftir sér í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK í fyrra að íbúar Austur-Óslóar, sem teldu veggjöld koma hve harðast niður á sér, ættu ef til vill að skipta bensínbílnum sínum út fyrir rafmagnsbíl og leggja þar með sitt lóð á vogarskál grænni Óslóar. Vöktu ummæli Berg slíka úlfúð að MDG sparaði hana lengi á eftir í viðtölum við fjölmiðla og var henni þungt legið á hálsi að sýna verst stöddu íbúum höfuðborgarinnar fordæmalausan hroka með því að „segja þeim bara að kaupa sér rafmagnsbíl“, fólki sem rétt ætti til hnífs og skeiðar.

Norðmenn spyrja því að leikslokum sveitarstjórnarkosninganna í september. Eru vegtollar raunverulegt þjóðfélagsvandamál sem er að sliga verst settu launaþræla Noregs eða eru andstæðingar gjaldanna bara að mála skrattann á vegi landsins?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert