Tæplega hundrað manns eru látnir eftir árás á lítið og frumstætt þorp í Malí. Íbúar þorpsins tilheyra Dogon-þjóðarbrotinu.
Árásin átti sér stað í Sobane-Kou, nálægt bænum Sanga. Lík hinna látnu hafa verið brennd eftir því sem fram kemur á BBC og er fleiri leitað.
Síðustu mánuði hafa mannskæðar árásir í Malí verið tíðar og hafa trúarofstækismenn meðal annars myrt fjölda almennra borgara í smærri þorpum.
Dogon-þjóðarbrotið hefur lengi átt í erjum við Fulani-hjarðmenn og segir bæjarstjóri nærliggjandi þorps að Fulani-menn frá umdæmi sínu hafi ráðist á Sobane-Kou í skjóli nætur.
Í mars voru yfir 130 Fulani-þorpsbúar myrtir af vopnuðum mönnum sem voru klæddir hefðbundnum Dogon klæðum á sama svæði.
Þá hafa árekstrar á milli hópanna tveggja aukist enn frekar síðan liðsmenn Ríkis íslam náðu fótfestu í Norður-Malí árið 2012.