Dæmdir fyrir nauðgun og morð á 8 ára stúlku

Fjölmiðlar hópuðust að lögreglubílnum sem flutti hina ákærðu í réttarsal …
Fjölmiðlar hópuðust að lögreglubílnum sem flutti hina ákærðu í réttarsal í dag. AFP

Sex af átta karlmönnum sem sakaðir vorum um að hafa nauðgað, pyntað og myrt átta ára stúlku í Kashmír á Indlandi hafa verið fundir sekir um glæpinn fyrir dómstólum eftir skjót réttarhöld.

Fórnarlambið var múslimi og tilheyrði ættbálki hirðingja. Hún fannst látin í skógi nálægt borginni Kathua í janúar á síðasta ári. Málið vakti mikla athygli þegar öfgasinnaðir hægrimenn hindúa og lögfræðinga mótmæltu handtöku mannanna átta. Þeir neituðu allir sök.

Stúlkan hvarf í kringum áramótin 2018 og lemstraður líkami hennar fannst næstum þremur vikum síðar. Eftir því sem fram kemur á BBC segja rannsakendur að henni hafi verið haldið í hofi á svæðinu í nokkra daga og verið byrlað lyf svo hún væri ekki með meðvitund. Í ákærunni segir að henni hafi verið „nauðgað í marga daga, pyntuð og að lokum myrt.“

Þá segir einnig í kærunni að mennirnir hafi með glæpum sínum viljað hrella ættbálk stúlkunnar svo hann yfirgæfi svæðið.

Átta aðilar, þeirra á meðal fyrrverandi embættismaður stjórnvalda, fjórir lögregluþjónar og ólögráða einstaklingur, voru ákærðir fyrir nauðgun og morð. Sjö þeirra fóru fyrir dómstóla og voru sex sakfelldir.

Réttað verður yfir ólögráða einstaklingnum sérstaklega þar sem hann er undir sjálfræðisaldri.

Málið vakti ekki mikla athygli fyrir utan Kashmír fyrr en í apríl, um fjórum mánuðum eftir að atburðirnir áttu sér stað, þegar hópar hindúa mótmæltu fyrir hönd hinna ákærðu.

Þegar frekari upplýsingar um meðferð stúlkunnar voru síðan gerðar opinberar mótmæltu skelkaðir Indverjar víða um landið. Mótmælin ágerðust svo enn frekar eftir að tveir ráðherrar voru viðstaddir stuðningsgöngur fyrir hina ákærðu.

Í kjölfar málsins og fleiri svipaðra mála voru kynnt ný lög á Indlandi sem tilskilur dauðadóm fyrir hvern þann sem er sakfelldur fyrir að nauðga barni undir 12 ára aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert