Eyðilegging í nafni frelsis

Íbúar þorpsins Ukpwa í Kamerún eru aðeins 513 talsins og landbúnaður er lifibrauð þeirra. Þetta er fólk sem býr í sátt og samlyndi við náttúruna en fyrir rúmri viku réðst hópur manna inn í þorpið, drap búpening og kveikti í húsum. Akrar voru eyðilagðir og gengið í skrokk á fólki.

Allt í nafni frelsis. „En hvaða frelsi bíður þessa fólks þar sem lífsviðurværi þess er að engu orðið?“ spyr Charlotte Wolff, lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem bjó í þorpinu um tveggja ára skeið.

Charlotte Wolff er lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands en hún …
Charlotte Wolff er lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands en hún bjó og starfaði í Kamerún um tveggja ára skeið. Háskóli Íslands

Kamerún hefur ekki farið hátt í fjölmiðlum á Íslandi, ekki frekar en mörg önnur ríki, nema kannski í tengslum við knattspyrnu. Kamerún var hins vegar til umræðu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna nýverið þar sem að minnsta kosti 4,2 milljónir eru í bráðri þörf fyrir neyðaraðstoð vegna átaka sem þar geisa.

Forseti landsins, Paul Biya, hefur verið við völd frá árinu 1982 en áður var hann forsætisráðherra í ríkisstjórn Ahmadou Ahidjo. Árið 1983 sakaði Biya Ahidjo um að skipuleggja valdarán og neyddi forsetann fyrrverandi til að flýja land. Þingið afnam takmörkun á valdatíma forsetans í apríl 2008 og hefur enginn þjóðhöfðingi ríkis sem ekki er konungsríki, setið jafn lengi á valdastóli í heiminum.

Að minnsta kosti 30% fleiri búa við neyð nú en fyrir ári, en átök hafa geisað í landinu frá árinu 2016. Átökin hófust með mótmælum enskumælandi lögmanna, nemenda og kennara í þeim hluta landsins sem er enskumælandi. Fólkið mótmælti auknum kröfum um að franska sé töluð í skólum í þessum hluta landsins. Einhverjir hafa lýst yfir táknrænu sjálfstæði og nefna nýja ríkið Ambazonia. 

Konur í þorpinu Ukpwa en þorpsbúar lifa á akuryrkju og …
Konur í þorpinu Ukpwa en þorpsbúar lifa á akuryrkju og öðrum landbúnaði.

Frétt BBC

Mark Lowcock, yf­ir­maður neyðaraðstoðar hjá Sam­einuðu þjóðunum, segir að hættuástand ríki í þessu Mið-Afríkuríki, hættuástand sem allt of lítið sé fjallað um. Ein ástæða þess að lítið hefur verið fjallað um stöðu mála er sú að blaðamönnum er bannað að fara inn á átakasvæðin og eru því einu myndirnar og myndskeiðin sem berast tekin af almenningi á síma.

Frétt BBC

Á sama tíma og átök milli aðskilnaðarsinna og hersveita stjórnvalda ríkja í enskumælandi hluta Kamerún fjölgar sífellt flóttafólki frá Mið-Afríkulýðveldinu og Nígeríu í landinu. Lowcock óttast að ástandið haldi bara áfram að versna og verði stjórnlaust innan tíðar. Yfir 560 þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín frá árinu 2017. Nígerísku vígasamtökin Boko Haram hafa nýtt sér tækifærið og fært út kvíarnar yfir landamærin þannig að sótt er að almennum borgurum úr öllum áttum. 

Charlotte sést hér við störf í Kamerún.
Charlotte sést hér við störf í Kamerún. Úr einkasafni

Charlotte Wolff sinnti þróunarstörfum í landbúnaði og skógrækt á vegum bandarísku ríkisstofnunarinnar Peace Corps í Kamerún um tveggja ára skeið, 2003-2005, og þann tíma bjó hún og starfaði í þorpinu Ukpwa sem er í norðvesturhluta landsins. Íbúarnir voru fluttir þangað af stjórnvöldum í Kamerún, með aðstoð erlendra ríkja, eftir að gassprenging í Nyos-vatni varð tæplega tvö þúsund manns að bana og stráfelldi búpening í ágúst 1986. 

Viðtal við Harald Sigurðsson eldfjallafræðing birtist í Morgunblaðinu árið 1989, en Haraldur er einn þeirra vísindamanna sem rannsökuðu ástæðuna fyrir gassprengingunni.

Charlotte segir að deilur séu ekki nýjar af nálinni á þessum svæði og ekki síst á þessum árstíma en það tengist yfirleitt því að bændur takast á um nautgripi sem villast yfir á landareign nágrannans. 

Þorpið er afar afskekkt og segir Charlotte að það liggi að vísu vegur þangað í höfuðstað héraðsins en fáir hætti sér þá leið vegna þess hversu hættulegur hann sé yfirferðar og vegna hættu á að verða fyrir árásum. Ekkert rafmagn er í þorpinu og ekkert rennandi vatn.

En fólkið þar býr í sátt og samlyndi með það sem það hefur. Nú eru þorpsbúar nýttir í þágu þeirra sem vilja ná landinu þeirra í nafni frelsis og sjálfstæðis. „Ég veit hreinlega ekki hvað bíður fólksins eftir að búið er að slátra búpening þeirra og spilla uppskerunni,“ segir Charlotte. 

Íbúar Ukpwa, sem er í norðvesturhluta landsins, voru fluttir þangað …
Íbúar Ukpwa, sem er í norðvesturhluta landsins, voru fluttir þangað eftir gassprengingu í Nyos-vatni. Ljósmynd/Wikipedia.org

Að sögn Charlotte er henni sagt að það séu menn af Aghem-ættbálkinum sem eru í uppreisnarliði Ambazonia sem gerðu árásina á föstudag. Íbúar í þorpinu hafi þekkt þá enda nágrannar til margra ára. Árásin hafi ekki snúist um aðskilnað heldur að sölsa undir sig land. 

Hún segir að enginn hafi haft áhuga á þessu landi þegar íbúarnir voru fluttir þangað. „Þau fóru ekki einu sinni þangað að eigin ósk heldur neyddust þau til þess þar sem heimili þeirra eyðilögðust í gassprengingunni árið 1986.“

Íbúarnir hafa byggt þorpið upp af eigin rammleik eftir að hafa fengið aðstoð í upphafi frá stjórnvöldum. „Þeim var gefið þetta land en nú ráðast þar inn samlandar þeirra sem ágirnast landið til landbúnaðarræktunar,“ segir Charlotte og bætir við að vart sé hægt að finna jaðarsettari hóp sem engan áhuga hefur á stjórnmálum og valdatafli í Kamerún. 

Ríkisstjórinn í Norðvestur-héraði Kamerún, Adolphe Lele, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hann fordæmir árásirnar á íbúa þorpsins Upkwa. Í yfirlýsingu hans kemur fram að kveikt hafi verið í yfir 40 húsum, íbúar pyntaðir og dýrum slátrað. Eins hafi árásarmennirnir ruplað og rænt í híbýlum fólks. 

Frétt um yfirlýsingu ríkisstjórans

Sendiherra Miðbaugs-Gíneu, Anatolio Ndong Mba, setti sig mjög á móti því að erlend ríki hefðu afskipti af ástandinu í Kamerún þegar það var til umfjöllunar í öryggisráðinu en hann er áheyrnarfulltrúi í þar og talaði fyrir hönd þriggja Afríkuríkja.

Mba segir að erfiðleikarnir í Kamerún ógni ekki friði í heiminum og þetta sé mál sem innlend stjórnvöld verði að takast á við með stuðningi frá alþjóðasamfélaginu. Í svipaðan streng taka fulltrúar Kína og Rússa í öryggisráðinu. Á sama tíma hafa mannúðarsamtök gagnrýnt Sameinuðu þjóðirnar harðlega fyrir aðgerðaleysið gagnvart átökunum í Kamerún. Fleiri hundruð almennir borgarar hafa látist í þessum átökum auk fjölda hermanna. 

Sendiherra Kamerún, Michel Tommo Monthe, hjá Sameinuðu þjóðunum, ver stöðuna heima fyrir og segir að átökin séu valdaránstilraun hryðjuverkamanna. 

Forsætisráðherra Kamerún, Joseph Dion Ngute, fór til enskumælandi hluta landsins nýverið og bauð aðskilnaðarsinnum til friðarviðræðna en ítrekaði að sjálfstæði væri ekki til umræðu.

Alls búa 23,5 milljónir í Kamerún og skiptist landið í …
Alls búa 23,5 milljónir í Kamerún og skiptist landið í tvennt, frönsku- og enskumælandi.

Það er ekkert eftir

Jan Egeland, forstjóri norsku flóttamannastofnunarinnar (Norwegian Refugee Council) og fyrrverandi yfirmaður mannúðarmála hjá SÞ, segir að hættuástandið í enskumælandi hluta Kamerún sé eitt það vanmetnasta í heimi. Skortur á upplýsingum og athygli alþjóðasamfélagsins hefur valdið því að friðsamleg mótmæli hafa orðið að grimmilegum óhæfuverkum af hálfu beggja fylkinga. Egeland hvetur til þess að reynt verði að beita pólitískum þrýstingi alþjóðasamfélagsins þannig að hægt verði að koma í veg fyrir að ofbeldið stigmagnist með hryllilegum afleiðingum. Um leið hvetur hann til þess að alþjóðlegir sjóðir verði nýttir til þess að veita bágstöddum aðstoð.

Nautgripir eru afar verðmætir á þessum slóðum.
Nautgripir eru afar verðmætir á þessum slóðum.

Charlotte segir að hún vilji reyna að veita þorpsbúum aðstoð og hún hafi þegar haft samband við vini og kunningja um að senda aðstoð sem komi að gagni við að byggja þorpið upp að nýju.

Þeir sem vilja styðja við verkefnið geta haft samband við Charlotte á netfangið charlottewolff@yahoo.com. Hún mun sjálf tryggja að aðstoðin berist beint til íbúanna. Hún talar sjálf tungumálið sem er talað í þorpinu sem er mállýska ættbálksins því þrátt fyrir að Ukpwa sé innan enskumælandi hluta Kamerún þá talar nánast enginn í þorpinu ensku. 

„Ef þau fá ekki aðstoð veit ég hreinlega ekki hvað verður um þau, allslaus,“ segir Charlotte og bætir við að jafnvel matarbirgðir hafi verið teknar, eldhúsbúnaður og verkfæri eyðilögð. „Það er ekkert eftir,“ segir Charlotte í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert