Árið 2015 var alls 441 kjarnaofn í rekstri í 30 löndum heimsins, þar af 184 í 17 Evrópulöndum. Norðmenn, og vafalítið fleiri áhorfendur HBO-þáttanna Chernobyl, sem nú fara sigurför um heiminn, eru fyrir tilstilli þessa sjónvarpsefnis orðnir ákaflega meðvitaðir um það gamla húsráð að taka inn joðtöflur sé lent í návígi við kjarnorkuslys, jafnvel kjarnorkustyrjöld.
Norsk apótek fara ekki varhluta af þessum nýja áhuga þjóðarinnar á joði, en notagildi þess felst í því að metta skjaldkirtilinn af efninu til að fyrirbyggja að kirtillinn, sem tekur upp mest allra líffæra mannsins af joði, taki upp geislavirkt joð sem getur skaðað hann alvarlega. Joð er steinefni og um leið snefilefni og mikilvægt í T3- og T4-hormónum skjaldkirtilsins.
Hafa nú tvöfalt fleiri öskjur af joði selst í norskum apótekum síðan þættirnir hófu göngu sína og virðist ekki lát á. „Þessir þættir eru áminning um að hlutirnir geta farið alvarlega úrskeiðis,“ segir Astrid Liland, sviðsstjóri viðbúnaðarsviðs Geislavarna- og kjarnorkuöryggisstofnunar Noregs (n. Direktoratet for strålevern og atomsikkerhet) í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag. Hún segir ágætt að fólk sé viðbúið þótt líkurnar séu litlar á sambærilegu slysi nú.
Þættirnir fjalla um slysið í kjarnorkuverinu í Chernobyl í Sovétríkjunum þáverandi, nú Úkraínu, aðfaranótt 26. apríl 1986, þegar kjarnaofn númer fjögur sprakk við æfingu á viðbrögðum við rafmagnsleysi í kjarnorkuverinu. Að íslenskum tíma varð sprengingin sjálf þó klukkan 23:23 að kvöldi 25. apríl.
Í Noregi eru nú tveir rannsóknakjarnaofnar, annar í Halden og hinn í Kjeller, en slökkt hefur verið á þeim báðum og hætta af þeim því lítil. Nágrannaríkið Svíþjóð rekur hins vegar tíu ofna sem allir eru virkir og skipa Svíar sér í tíunda sætið af þjóðum heims með flesta kjarnaofna.
NRK lagðist í rannsóknir til að leiða fyrir sjónir lesenda sinna hvað af því sem fram kæmi í þáttunum væri rétt og hvað hreinn skáldskapur. Í styttri útgáfu er útkoman úr þeirri rannsókn eitthvað á þessa leið:
Ungur slökkviliðsmaður sem átti ólétta konu lést á sjúkrahúsi í kjölfar slyssins
Rétt. Hinn nýkvænti Vasily Ignatenko og Lyudmilla kona hans voru á leið í ferðalag til Hvíta-Rússlands þegar Vasily var kallaður í sitt hinsta útkall, að kjarnorkuverinu.
Fóstur sem tók í sig geislunina bjargaði lífi móður sinnar
Bull segir kjarneðlisfræðingurinn Nils Bøhmer við NRK. „Farið er dálítið frjálslega með áhrif geislunar í þáttunum, en þarna eru mörg flott atriði og greinargóðar upplýsingar um það sem gerðist,“ segir Bøhmer.
Sýnilegir áverkar á húð
Bull, eða að minnsta kosti verulega ýkt að mati Bøhmer. „Fólk getur látist á tiltölulega skömmum tíma vegna sköddunar innri líffæra, en þetta sést ekki mikið utan á líkamanum.“
Leyndarhyggja olli slysinu
Rétt. „Hluti vandamálsins á þessum tíma var að slys gátu ekki orðið í sovéskum kjarnorkuverum,“ segir Bøhmer og hefur þar lög að mæla, reyndar gat ekkert neikvætt gerst í ráðstjórnarríkjunum undir ritskoðunarstefnu Kommúnistaflokksins sem varð meðal annars til þess að Sovétmenn fréttu einna síðast allra þjóða heims af slysinu sem varð í þeirra eigin bakgarði. „Starfsfólk kjarnorkuversins vissi ekki að við þessar aðstæður [sem settar voru upp að kvöldi 25. apríl 1986] var ofninn algjörlega stjórnlaus og mjög óstöðugur. Hefði þeim verið kunnugt um það hefði slysið ekki orðið,“ segir kjarneðlisfræðingurinn.
Deilur vísindamanna og forkólfa Kommúnistaflokksins
Bull. „Þetta gerðist aldrei,“ skrifar rússneska blaðakonan og aðgerðasinninn Masha Gessen sem er öllum hnútum kunnug í sögu Kommúnistaflokksins sovéska. Í þáttunum á sovéski kjarneðlisfræðingurinn Ulyana Khomyuk að hafa sagt við ritara í flokknum: „Ég er kjarneðlisfræðingur. Áður en þú varðst flokksritari starfaðirðu í skóverksmiðju.“ „Þetta hefði hún aldrei sagt,“ skrifar Gessen og bætir því við að út í hött sé að ritarinn hafi svo skálað í vodka við kjarneðlisfræðinginn. „Hann hefði aldrei skálað við einhvern sem skellt hefði þessu framan í hann,“ skrifar hún, „það eru of margar hetjur í þessum þáttum.“
Tvöföld geislunin í Hiroshima
Vafasamt. Nils Bøhmer segir þetta eins og að bera saman epli og perur. „Í Hiroshima lést fólk af völdum höggbylgjunnar og bruna. Hins vegar er miklu meira magn úrans í kjarnorkuveri. Þetta fer eftir því hvað er verið að mæla í þessum samanburði.“
Lifandi manneskjur látnar fjarlægja 100 tonn af grafíti
Rétt. Hundrað manns voru látnir fjarlægja 100 tonn af grafíti af þaki kjarnorkuversins. Á ráðstefnu árið 1990 sagði Juri Semiolenko, embættismaður sem bar ábyrgð á tiltektinni í kjölfar slyssins, að ætlunin hefði verið að láta fjarstýrð vélmenni annast tiltektina, en þau hefðu hrunið saman í geisluninni á svæðinu og því ekki annað tækt en að senda lifandi fólk á vettvang. Frá þessu greinir Business Insider í sinni úttekt á réttu og röngu í þáttunum.