Ebólufaraldurinn sem herjað hefur á Austur-Kongó hefur nú náð út fyrir landamæri landsins, en fimm ára drengur í Úganda hefur nú látist af völdum sjúkdómsins. Þetta tilkynnti heilbrigðisráðherra Úganda, Ruth Aceng, fyrr í dag.
Amma drengsins unga og yngri bróðir hans hafa einnig verið greind með vírusinn eftir að hafa farið í heimsókn til nágrannaríkisins Austur-Kongó. Sagði Aceng heilbrigðisráðherra að nú væru þrjú staðfest tilvik um ebólu í Úganda. Markar þetta fyrsta tilvikið sem vitað er um þar sem faraldurinn, sem hófst í Austur-Kongó í ágúst, færist yfir landamæri landsins. Yfir tvö þúsund hafa verið greindir með ebólu í Austur-Kongó. Tveir þriðju þeirra hafa beðið bana.
Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti Úganda segir að kongósk kona sem er gift manni frá Úganda, móðir drengsins látna, hafi farið til Austur-Kongó með móður hennar, tveimur börnum og einum öðrum fjölskyldumeðlimi til að annast föður hennar, sem síðar lést af völdum ebólu.
Þegar þau sneru aftur til Úganda var ungi drengurinn byrjaður að kasta upp blóði, og var sendur á spítala, þar sem komist var að því að hann hafði smitast af vírusnum. Fjölskyldan var send í sóttkví en seinni prófanir leiddu í ljós að litli bróðir drengsins, þriggja ára, og amma hans hefðu einnig smitast af vírusnum.