Næstum 100 handteknir í Rússlandi

Alexei Navalny, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, í apríl síðastliðnum.
Alexei Navalny, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, í apríl síðastliðnum. AFP

Hátt í eitt hundrað manns hafa verið handteknir eftir að hafa tekið þátt í mótmælagöngu í miðborg Moskvu sem ekki hafði verið gefið leyfi fyrir.

Alexei Navalny, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, er einn þeirra 94 sem voru handteknir.

Að sögn talskonu var farið í gönguna til að mótmæla meintri spillingu og aðgerðaleysi innan stjórnsýslunnar. „Alexei Navalny var rétt í þessu handtekinn,“ sagði Kira Yarmysh á Twitter.

Mótmælin fóru fram á friðsamlegan hátt. Efnt var til göngunnar til að krefjast þess að rannsóknarblaðamaðurinn Ivan Golunov yrði leystur úr haldi. Hann var handtekinn í síðustu viku eftir að hafa verið sakaður um fíkniefnasölu en var sleppt úr haldi í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert