Óhætt er að segja að fá sakamál hafi vakið meiri athygli síðustu ár í Noregi en mál ákæruvaldsins í Norður-Troms gegn Svein Ludvigsen, þingmanni Hægriflokksins á norska Stórþinginu árin 1989 til 2001, sjávarútvegsráðherra í annarri ríkisstjórn Kjell Magne Bondevik 2001 til 2005, fylkisstjóra Troms árin 2006 til 2014 og sparisjóðsstjóra í Sparisjóði Norður-Noregs í Tromsø fyrir tíma stjórnmálaferilsins.
Ludvigsen, sem verður 73 ára eftir rúman mánuð, er gefið að sök að hafa margþröngvað þremur mönnum, hælisleitendum í Noregi, til kynferðismaka við sig tímabilið frá sumri 2011 fram til nóvember 2017 á hótelum í Ósló, fylkisþingshúsinu í Tromsø, sumarbústað Ludvigsen í Andselv og bifreið á ótilgreindum stöðum, ýmist gegn greiðslu 15.000 norskra króna, loforðum um aðstoð við að fá hælisbeiðnir mannanna samþykktar eða hótunum um að hann gæti auðveldlega komið í veg fyrir að þær yrðu samþykktar.
Ludvigsen harðneitar sök í öllum ákæruliðum, en hefur viðurkennt að hafa haft kynmök við einn hælisleitendanna sem hafi gerst þegar sá hafi hitt hann á hótelherbergi í Ósló til að ræða umsókn um hælisvist. Ludvigsen hafi þá verið í sturtu þegar hælisleitandinn knúði dyra og svo hafi „eitt leitt af öðru“.
Meint fórnarlömb Ludvigsen eru fædd snemma á tíunda áratugnum og því á þrítugsaldri. Eitt þeirra kærði ráðherrann fyrrverandi til lögreglu árið 2017 sem í kjölfarið hleraði síma hans og fékk síðar aðgang að samtölum hans við hælisleitendurna á spjallforritinu Messenger. Komu þar ýmis kurl til grafar.
Ludvigsen, sem Haraldur Noregskonungur heiðraði á sínum tíma fyrir framúrskarandi þjónustu við Noreg og manneskjuna (n. utmerkede fortjenester for Norge og menneskeheten), spyr í upptöku af símtali við einn hælisleitendanna hvort hann hafi ekki örugglega eytt öllu. Tilefni spurningarinnar var að hælisleitandinn sagði Ludvigsen að kærasta hans (hælisleitandans) hefði aðgangsorð hans að Facebook og gæti skoðað öll hans samskipti. Áttu þessi orðaskipti sér meðal annars stað í símtalinu:
Ludvigsen: „Já já, þá sendum við hvor öðrum ekki neitt.“
Hælisleitandi: „Uuu nei. Og svo held ég að hún sé pínu svona veik, svona... hún er orðin pínu...“
Ludvigsen (þá 71 árs við rúmlega tvítugan viðmælanda sinn): „Afbrýðisöm?“
Hælisleitandi: „Já, eitthvað svoleiðis.“
Ludvigsen: „Akkúrat já. En þú, [nafn], þá sendum við hvor öðrum ekki neitt. Ertu ekki búinn að eyða öllu?“
Hælisleitandi: „Jú jú, þá bíður þú bara eftir mér eða þannig [n. Ja da, da venter du på meg på en måte].“
Ludvigsen: „Jú, það er flott.“
Þegar hér var komið sögu spurði Tor Børge Nordmo héraðssaksóknari hvað það hafi verið sem ákærði spurði hvort eytt hefði verið. „Hann vildi ekki vera í sambandi við mig svo ég reikna með að hann hafi eytt öllu,“ svaraði Ludvigsen að bragði. „Áttirðu við myndir?“ spurði Nordmo. „Mér finnst meira gert úr þessu samtali en efni voru til,“ svaraði ákærði þá án þess að svara spurningunni og sagðist eingöngu hafa verið að róa viðmælanda sinn.
Ein nokkurra mynda sem lagðar hafa verið fram við Héraðsdóm Norður-Troms er tekin á farsíma eins hælisleitendanna á hótelherbergi í Ósló 26. nóvember 2017. Myndin er tekin af spegli og sýnir óvéfengjanlega mynd spegilsins af því hvar sjávarútvegsráðherrann fyrrverandi liggur nakinn á hnjánum fyrir framan hælisleitandann. Nordmo héraðssaksóknari spurði Ludvigsen út í hvernig á þessu stæði þegar myndin var sýnd réttinum.
Kvað Ludvigsen myndefnið eiga sér ofureðlilega skýringu, hann hefði lengi verið slæmur í öðru hnénu og fóturinn einfaldlega gefið sig þegar hann gekk nakinn í átt að gesti sínum til að ræða umsókn hans um hælisvist þennan nóvemberdag árið 2017.
Annar hælisleitendanna sagði ágengni fylkisstjórans fyrrverandi hafa tekið út yfir allan þjófabálk. „Hann sagði alltaf að þetta yrði síðasta skiptið,“ sagði fórnarlambið meinta. „Þegar ég neitaði honum sagði hann að konan hans kæmi heim á morgun og hún yrði fúl út í hann. Er annars einhver ástæða til að þú verðir áfram í Noregi?“ sagði hælisleitandinn að Ludvigsen hefði spurt og í orðum hans falist hótun um að hinn fengi aldrei hæli.
„Hann sagðist þekkja alla, lögregluna, útlendingaeftirlitið og að konungurinn væri besti vinur hans. Ekkert þýddi að segja neinum neitt, hann léti bara vísa mér úr landi.“
Á þeim nótum lauk þriðja degi aðalmeðferðar héraðssaksóknara Norður-Troms yfir Svein Ludvigsen, fyrrverandi sparisjóðsstjóra, þingmanni, ráðherra og fylkisstjóra. Reyndar einnig frímúrara en norska frímúrarareglan gerði hann útlægan til æviloka úr bræðralaginu eftir að ákæran gegn honum var gefin út.