Staðfestir beiðni um framsal Assange

Innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid.
Innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid. AFP

Innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid, hefur skrifað undir staðfestingu um að beiðni bandarískra yfirvalda um að stofnandi WikiLeaks, Julian Assange, verði framseldur hafi borist. Með undirskrift Javid er hægt að fara með málið fyrir dóm. Framsalsbeiðnin byggir á því að Assange sé grunaður um njósnir í Bandaríkjunum. Assange er ákærður fyr­ir að brjóta gegn njósna­lög­gjöf Banda­ríkj­anna vegna birt­ing­ar á leyni­leg­um hernaðar- og stjórn­sýslu­gögn­um. Ákæru­liðirn­ir eru 17 tals­ins. 

Bandaríska dómsmálaráðuneytið staðfesti á þriðjudag að það hafi lagt fram formlega beiðni um framsal og Javid staðfestir að hann hafi undirritað  beiðnina af hálfu breskra yfirvalda í gær.

Lokaákvörðunin um hvort Assange verður framseldur er tekin af dómstólum. Næsta réttarhald í máli Assange verður á morgun. Líkt og ítrekað hefur komið fram þá dvaldi Assange í skjóli yfirvalda í Ekvador í sendiráði þeirra í London í sjö ár eða þar til hann var handtekinn í sendiráðinu 11. apríl. Hann afplánar nú 50 vikna dóm fyrir að hafa brotið bresk lög um lausn gegn tryggingu þegar hann flúði inn í sendiráðið árið 2012.

„Ég er afar ánægður með að lögreglan náði loks að fanga hann og hann er nú réttilega á bak við lás og slá fyrir að hafa brotið bresk lög,“ sagði Javid í viðtali við BBC í morgun. Hann segir að framsalsbeiðnin hafi borist frá bandarískum yfirvöldum og hann hafi undirritað hana í gær. 

Að sögn Javid á að fara að lögum, alltaf, og fyrir liggi lögformleg beiðni um framsal og hann hafi undirritað hana en ítrekar að ákvörðunin um framsal sé í höndum dómstóla. 

Assange er í haldi í Belsmarsh fangelsinu í London og er ekki gert ráð fyrir að hann mæti í eigin persónu í réttarsalinn á morgun heldur tjái sig í gegnum myndsamtal líkt og yfirleitt er í málum sem þessum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert