Utanríkisráðuneyti Írans segir ekkert hæft í ásökunum Bandaríkjamanna um að Íran beri ábyrgð á árásum á tvö olíuflutningaskip í Ómanflóa og með þessu séu Bandaríkin að reyna að spilla fyrir samskiptum ríkja. Bandaríkjaher hefur birt myndskeið sem á að sýna byltingarverði Írans fjarlægja ósprungnar sprengjur af hlið olíuskips sem skemmdist í árásinni í gær.
Áhöfnum tveggja tankskipa var bjargað í Ómanflóa í gær eftir sprengingar sem urðu til þess að eldar kviknuðu í þeim. Ekki var vitað hvað olli sprengingunum en grunur lék á að skipin hefðu orðið fyrir árásum. Sprengingarnar urðu til þess að heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði verulega og óttast var að þær myndu auka spennuna í Mið-Austurlöndum. Annað skipanna, Front Altair, er í eigu norsks fyrirtækis og hitt, Kokuka Courageous, í eigu japansks skipafélags. Siglingamálastofnun Noregs sagði að skýrt hefði verið frá þremur sprengingum í norska skipinu eftir að það hefði orðið fyrir „árás“. Stjórnvöld í Íran sögðu að öllum í áhöfnum skipanna, alls 44 skipverjum, hefði verið bjargað.
Front Altair var á leiðinni frá Katar til Kúveits með etanólfarm en japanska skipið sigldi frá Sádi-Arabíu með metanólfarm sem átti að fara til Singapúr.
Utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif, segir á Twitter að Bandaríkjastjórn hafi strax sakað Íran um að bera ábyrgð á árásinni án þess að hafa nokkrar sannanir fyrir því. Það sýni hvað búi að baki - að spilla fyrir samskiptum ríkja.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir í gærkvöldi, að mat Bandaríkjanna væri að Íran bæri ábyrgð á árásunum. Hyggjast Bandaríkjamenn taka málið upp við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.