Áhöfn Kokuka Courageous, tankskips í eigu japansks skipafélags, segist hafa séð „fljúgandi hlut“ skömmu áður en önnur sprenging varð um borð. Áhöfnum tveggja tankskipa var bjargað í Ómanflóa í gær eftir sprengingar sem urðu til þess að eldar kviknuðu í þeim.
„Áhöfnin segir að þeir hafi verið hæfðir af fljúgandi hlut. Þeir sáu hann með eigin augum,“ segir Yutaka Katada, yfirmaður Kokuka Sangyo-skipafélagsins. Hann segir að skipafélagið hafi fengið skýrslu um að eitthvað hafi komið fljúgandi yfir skipið, síðan hafi sprenging orðið og gat komið á skrokk þess.
Að sögn Katada voru gerðar tvær árásir á Kokuka Courageous en skipið var að koma frá Sádi-Arabíu með metanólfarm sem átti að fara til Singapúr. Þrír tímar hafi liðið milli árásásanna. Eldur kom upp í skipinu eftir sprenginguna en að sögn Katada urðu ekki miklar skemmdir á skipunu. Áhöfn skipsins var bjargað frá borði og einn skipverji var með minni háttar áverka.
Hitt skipið, Front Altair, er í eigu norsks fyrirtækis. Siglingamálastofnun Noregs sagði að skýrt hefði verið frá þremur sprengingum í norska skipinu eftir að það hefði orðið fyrir „árás“. Stjórnvöld í Íran sögðu að öllum í áhöfnum skipanna, alls 44 skipverjum, hefði verið bjargað. Front Altair var á leiðinni frá Katar til Kúveits með etanólfarm.