25 ára lestarpassi eftir fæðingu um borð

Stúlka sem fæddist um borð í írskri járnbrautarlest fær frítt …
Stúlka sem fæddist um borð í írskri járnbrautarlest fær frítt um borð í lest fyrstu 25 árin. Ljósmynd/Wikipedia.org

Er sársaukakvein tóku að heyrast út af baðherbergi í járnbrautarlest á leið til Dyflinnar á þriðjudaginn kallaði lestarstjórinn eftir læknismenntuðum um borð. Kona var að fæða.

Tveir hjúkrunarfræðingar voru fyrstir á vettvang og hjálpuðu konunni og tryggðu aðstæður. Svo kom heimilislæknir, sem einnig var fyrir tilviljun um borð í lestinni, og lagði lokahönd á verkið. Hann tók á móti barninu um borð.

Lestin var á leið frá Galway til Dyflinnar.

Stofnunin sem heldur utan um írska járnbrautakerfið bauð barninu, sem reyndist stúlka, ókeypis lestarferðir fram til 25 ára aldurs. Stúlkan þáði það. Og móðurinni og barninu sem báðum heilsast vel var vitaskuld óskað til hamingju með lífið. 

Haft var orð á því hve vel náðist að girða af vagninn þar sem fæðingin átti sér stað svo fólk fengi næði til að athafna sig. Ku vera táknrænt að það var gert með barnavögnum.

Frétt RTE
Frétt Independent

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert