Amanda Knox óttast árásir á Ítalíu

Tilfinningarnar báru Amöndu Knox ofurliði þegar hún rifjaði upp mál …
Tilfinningarnar báru Amöndu Knox ofurliði þegar hún rifjaði upp mál sitt á málþingi á Ítalíu í dag. AFP

Amanda Knox óttast að verða fyrir árásum og tilefnislausum ásökunum á Ítalíu eftir að hún sneri þangað aftur í fyrsta skipti síðan hún losnaði úr fangelsi árið 2011. BBC greinir frá.

Hin bandaríska Amanda Knox er gestafyrirlesari á málþingi um réttarkerfið á Ítalíu og bera umræðurnar titilinn „Málsmeðferð í fjölmiðlum“.

Fjallað hefur verið um mál Amöndu í fjölmiðlum um allan heim síðan árið 2007 þegar hún var dæmd sek fyrir morðið á meðleigjanda sínum Meredith Kercher ásamt þáverandi kærasta sínum Raffaele Sollecito.

Áfrýjunardómstóll sneri dóminum við og sýknaði þau bæði árið 2011. Amanda flutti þá til heimalands síns og hefur ekki snúið aftur til Ítalíu fyrr en nú.

„Í dag óttast ég að verða fyrir áreiti, að verða að athlægi og vera höfð fyrir rangri sök að nýju,“ sagði Amanda á málþinginu áður en hún neitaði enn og aftur að hafa átt þátt í dauða Meredith Kercher. Hún fjallaði um þátt fjölmiðla í rannsókninni og taldi þá hafa „mengað rannsókn málsins“.

„Það var ómögulegt að hljóta réttláta málsmeðferð. Almenningsálitið er ekki ábyrgt fyrir neinu. Dómstóll götunnar lítur ekki á þig sem manneskju heldur neysluvöru,“ bætti Amanda við og brast í grát.

Lögmaður Kercher-fjölskyldunnar hefur gagnrýnt harðlega þá ákvörðun Amöndu að snúa aftur til Ítalíu og telur athyglissýki ráða för.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert