Íranar brjóta gegn samningi eftir 10 daga

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Hassan Rouhani, forseti Írans, á samsettri …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Hassan Rouhani, forseti Írans, á samsettri mynd. AFP

Írönsk stjórnvöld munu eftir tíu daga fara fram úr takmörkunum um auðgun úrans, eða 27. júní, og brjóta þannig gegn samningi sem var gerður við stórveldin árið 2015.

„Í dag er hafin niðurtalning í ljósi þess að eftir tíu daga munum við fara fram úr 300 kílógramma takmörkunum um auðgun úrans,“ sagði talsmaður kjarnorkumálastofnunar Írans, Behrouz Kamalvandi, á blaðamannafundi.

Ákvörðunin um takmarkanir á auðgun úrans var tekin árið 2015 en Bandaríkin ákváðu að draga sig úr samkomulaginu. Refsiaðgerðir gegn Íran hófust að nýju í kjölfarið. 

Í maí síðastliðnum greindu Íranar frá því að þeir ætluðu ekki fylgja þessum takmörkunum lengur vegna ákvörðunar Bandaríkjamanna. 

Mikil spenna hefur ríkt að undanförnu á milli Írans og Bandaríkjanna vegna árásar á tvö tankskip í Ómanflóa. 

Vatnsorkuver í Arak, 320 kílómetrum frá höfuðborg Írans, Tehran.
Vatnsorkuver í Arak, 320 kílómetrum frá höfuðborg Írans, Tehran. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert