Maður sem skvetti mjólkurhristingi yfir Nigel Farage leiðtoga Brexit-flokksins í Newcastle í síðasta mánuði var í dag dæmdur til þess að greiða stjórnmálamanninum 350 bresk pund í skaðabætur og til þess að skila af sér 150 klukkustundum í ólaunaða samfélagsþjónustu.
Paul Crowther heitir maðurinn sem sturtaði mjólkurhristingnum á Farage og er hann 32 ára gamall íbúi í úthverfi borgarinnar. Dómarinn Bernard Begley sagði gjörðir hans hafa verið yfirgengilega heimskulegar, samkvæmt frásögn BBC af dómsuppkvaðningunni.
Verjandi Crowther sagði skjólstæðing sinn hafa sturtað mjólkurhristingnum í stundarbrjálæði og að hann sæi nú eftir því að hafa ráðist gegn Farage með þessum hætti, en eftir að hann var handtekinn á vettvangi sagði hann reyndar blaðamönnum að hann hefði rétt til að mótmæla Farage með þessum hætti. Hann var í kjölfarið rekinn úr starfi sínu sem tæknimaður hjá Sky-sjónvarpsþjónustunni.
Saksóknari í málinu sagði að Farage hefði verið skelkaður í augnablik er mjólkurhristingurinn nálgaðist, þar sem hann hefði ekki vitað hvort þarna væri á ferðinni mjólkurhristingur „eða eitthvað óheillavænlegra“.