Dreifði myndskeiðum af hryðjuverkum

Fjöldamorðinginn og hryðjuverkamaðurinn sem tók 51 af lífi í tveimur …
Fjöldamorðinginn og hryðjuverkamaðurinn sem tók 51 af lífi í tveimur moskum í Nýja-Sjálandi 15. mars. AFP

Nýsjálendingur sem dreifði beinni útsendingu af hryðjuverkunum sem ástralskur öfgamaður framdi í tveimur moskum í Christchurch hefur verið dæmdur í fangelsi í 21 mánuð. 

Philip Arps sendi myndskeiðið til 30 einstaklinga og sagði að það væri hrikalegt (awesome). Tók hann fram hversu margir sjást drepnir í myndskeiðinu. 

Héraðsdómari í Christchurch, Stephen O'Driscoll, segir að Arps hafi enga eftirsjá sýnt hvað varðar áhrif árásanna á samfélag múslima í borginni en Arps játaði að hafa dreift óhugnanlegu efni en um er að ræða myndskeið sem árásarmaðurinn sendi sjálfur út beint á samfélagsmiðlum þegar hann framdi árásirnar. Alls tók hann 51 af lífi í moskunum tveimur. Fólkið sem hann drap var við föstudagsbænir í moskunum 15. mars síðastliðinn.

Arps, sem er 44 ára kaupsýslumaður, var einnig dæmdur árið 2016 fyrir að skilja eftir svínshaus við Al Noor-moskuna en flestir þeirra sem létust í árásinni voru drepnir þar. Ástralski öfgamaðurinn var leiddur fyrir dómara í síðustu viku og neitar hann sök í öllum 92 ákæruliðum. Réttarhöld yfir honum hefjast á næsta ári. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert