Íklædd lambhúshettu með höfuðljós í skjóli nætur vippar hin þýska Andrea sér yfir girðingu við matvöruverslun í Berlín og stekkur ofan í gám. Þar er að finna ótal matvörur sem hefur verið hent beint í ruslið. Hún grípur í snarhasti það ætilegasta og fyllir bakpoka sinn.
Hún verður að hafa hraðar hendur því hún brýtur lög með athæfinu og á yfir höfði sér sekt, ef hún verður staðin að verki, fyrir þjófnað. Gámurinn er fullur af pasta, ávöxtum og trufflu-olíu, og er enn í pakkningunum, að því er virðist í góðu ástandi.
„Þú verður að hafa hraðar hendur. Bera virðingu fyrir svæðinu en fyrst og fremst að forðast lögregluna því það er ólöglegt í Þýskalandi að stela óseldum hlutum úr rusli,“ segir aðgerðasinninn sem berst gegn matarsóun í skjóli nætur.
Eftir feng næturinnar leggur hún í vana sinn að deila honum með öðrum. Ýmist eldar hún úr matnum og gefur meðleigjendum sínum eða gefur í svokallað súpueldhús til heimilislausra.
Andrea sem vill ekki gefa upp fullt nafn sitt er 22 ára gamall meistaranemi í eðlisfræði við Háskólann í Berlín. Ástæðan fyrir athæfinu er ekki blankheit háskólanemans heldur er ástæðan djúpstæðari og af pólitískum ástæðum.
„Ég er að berjast gegn kerfi sem byggir á ofneyslu. Amma mín sagði alltaf: „ekki henda mat“. Í dag kýs fólk heldur að henda mat frekar en að gefa hann frítt,“ segir hún. Hún er því tilbúin að leggja æru sínu að veði því athæfið er ólöglegt. Ef hún verður gripin gæti hún átt yfir höfði sér sekt upp á hundruð evra. Allir þeir hlutir sem er hent í ruslagám eru eign þess sem hendir þeim alveg þar til gámabíll hefur fjarlægt ruslið af svæðinu.
Gríðarleg vakning hefur verið í þessum málaflokki sérstaklega í Þýskalandi undanfarið. Þrátt fyrir þetta stunda fleiri hundruð manns athæfið til að sporna gegn matarsóun með tilheyrandi mengun í heiminum. Þeir krefjast þess að matvælaiðnaðurinn grípi til enn frekari aðgerða til að sporna gegn matarsóuninni.
Í janúar á þessu ári voru tveir slíkir einstaklingar gripnir í Þýskalandi og dæmdir til að greiða 225 evrur í sekt og til átta daga í samfélagsþjónustu.
Alls hafa safnast um 126 þúsund undirskriftir þar sem þýsk stjórnvöld eru hvött til að krefjast þess að stórar matvælakeðjur láti óseldar vörur sínar renna til góðgerðarmála eins og gert er Belgíu og Frakklandi.
Yfir 11 milljón tonnum af mat er hent árlega í Þýskalandi, samkvæmt opinberum tölum. Bent hefur verið á að þetta gæti verið nær 18 milljónum tonna ef landbúnaðurinn er talinn með í þessu mengi.
Í byrjun júní þrömmuðu fleiri hundruð mótmælendur götur Berlínar og kröfðust þess að það yrði gert löglegt að kafa ofan í gáma og ná sér í mat.