Varaðir við að opna Pandóruboxið

Mynd af skrokki tankskipsins sem varð fyrir sprengingu í síðustu …
Mynd af skrokki tankskipsins sem varð fyrir sprengingu í síðustu viku. AFP

Kínversk yfirvöld hafa varað við því að Pandórubox verði opnað í Mið-Austurlöndum í kjölfar þess að bandarísk yfirvöld tilkynntu um að eitt þúsund hermenn verði sendir þangað til viðbótar við þá sem þar eru fyrir. Vaxandi spenna er í samskiptum Bandaríkjanna og Íran. 

Utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, hvetur yfirvöld í Íran til þess að hverfa ekki frá kjarnorkusamkomulaginu svo auðveldlega en írönsk yfirvöld hafa greint frá því að þau ætli að bæta við úranbirgðir landsins ef stórveldin uppfylla ekki skilyrði samkomulagsins innan tíu daga. 

Starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Patrick Shanahan, segir að ástæðan fyrir því að fleiri hermenn eru sendir til Mið-Austurlanda sé fjandsamleg hegðun íranskra yfirvalda. 

Skömmu áður en Bandaríkjamenn tilkynntu um aukinn herafla í Mið-Austurlöndum birti bandaríska varnarmálaráðuneytið myndir sem sýna sprengjuleifar á skrokki japanska tankskipsins sem varð fyrir árás á fimmtudag.

Myndirnar eiga að sýna byltingarverði Írans að störfum við að fjarlægja sprengjuleifarnar. Auk þessa birtu yfirvöld myndir af gati á skipsskrokki Kokuka Courageous.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert