Stjórnvöld í Moskvu gagnrýna harðlega það sem þau kalla „ósanngjarnar ásakanir“ alþjóðlegs rannsóknarteymis sem hefur farið fram á handtöku fjögurra manna sem taldir eru bera ábyrgð á árásinni á flugvél Malaysian Airlines yfir austurhluta Úkraínu árið 2014.
Rannsóknarnefndin, sem leidd er af Hollendingum, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Rússarnir Igor Girkin, Sergey Dubinskíj og Oleg Pulatov auk Úkraínumannsins Leonid Kharchenko, beri ábyrgð á því að BUK Telar-flugskeytið sem grandaði flugvélinni hafi verið flutt yfir landamæri Rússlands til Úkraínu.
„Enn og aftur er algjörlega tilhæfulausum ásökunum beint gegn Rússum í þeim tilgangi einum að minnka traust á okkur í augum alþjóða samfélagsins,“ kom fram í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Rússlands vegna málsins.
Nefndin hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að flugskeytið sem grandaði flugi MH17, með þeim afleiðingum að 298 manns létust, væri rússneskt og að 53. herdeild rússneska landhersins hefði haft það til umráða. Því hafa rússnesk yfirvöld staðfastlega neitað.