„Þegar níu mánaða gömul dóttir mín lést vegna skorts á lyfjum og læknisaðstoð ákvað ég að fara með fjölskyldu mína frá Venesúela áður en eitthvert annað af börnum mínum dæi. Sjúkdómar voru að bera okkur ofurliði. Ég sagði við sjálfan mig; annaðhvort förum við eða við deyjum,“ segir Eulirio Baes, 33 ára Venesúelabúi sem flúði með alla fjölskylduna til Brasilíu eftir að þrír ættingjar hans höfðu látist.
Fjöldi þeirra sem flúði stríð, ofsóknir og átök fór yfir 70 milljónir árið 2018. Þetta er mesti fjöldi sem Flóttamannastofnun SÞ hefur séð á þeim næstum 70 árum sem hún hefur starfað.
Í árslok 2018 höfðu yfir fjórar milljónir íbúa Venesúela flúið heimili sín og er þetta mesti fólksflótti af svæðinu í marga áratugi. Yfir 400 þúsund Venesúelamenn hafa sótt um alþjóðlega vernd (hæli) í öðrum ríkjum en nánast útilokað er að fá hæli á þessum slóðum. Til dagsins í dag hafa aðeins 21 þúsund Venesúelabúar fengið stöðu flóttamanns.
Ríki Rómönsku-Ameríku hafa veitt um einni milljón Venesúelabúa tímabundið dvalarleyfi sem veitir þeim rétt á aðgangi að grunnþjónustu að einhverju leyti. Í flestum tilvikum er fólkið aftur á móti að mestu réttlaust og í mikilli hættu á misnotkun og mansali.
Talan 70,8 milljónir er varlega áætluð, samkvæmt upplýsingum frá UNHCR, sérstaklega þar sem neyðarástandið í Venesúela endurspeglast einungis að hluta í henni.
Talið er að um fimm þúsund yfirgefi landið á degi hverjum og miðað við þann fjölda er áætlað að um fimm milljónir verði landflótta fyrir árslok.
„Við töldum okkur ekki örugg lengur. Við vorum hrædd við að vera heima hjá okkur og við gátum ekki skilið börnin eftir ein. Þeir hótuðu að drepa bróður minn,“ segir Angelica, sem hefur sótt um hæli í Panama. Hún flúði land eftir að vopnuð glæpasamtök reyndu að ná 12 ára gömlum syni hennar á sitt vald.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársriti Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) fyrir árið 2018 sem kom út í dag.
Aldrei hafa jafn margir verið á flótta og í árslok 2018, eða 70,8 milljónir jarðarbúa. Á áratug hefur þeim fjölgað um 27, 5 milljónir. Þetta er tvöfaldur fjöldi flóttafólks miðað við fyrir 20 árum, 2,2 milljónum fleiri en fyrir ári og samsvarar íbúafjölda sem er mitt á milli Taílands og Tyrklands.
Mest var aukningin á árunum 2012-2015, einkum og sér í lagi vegna stríðsins í Sýrlandi. En staðan er alvarleg víðar. Má þar nefna önnur ríki Mið-Austurlanda, svo sem Írak og Jemen. Hluta af ríkjunum sunnan Sahara, svo sem Austur-Kongó og Suður-Súdan svo ekki sé talað um flótta róhingja til Bangladess.
Árið 2018 varð mikil fjölgun flóttafólks frá Eþíópíu og Venesúela. Er svo komið að 1 af hverjum 108 jarðarbúum er á flótta. Fyrir áratug var 1 af hverjum 160 á flótta. Fjöldi flóttafólks sem UNHCR hefur afskipti af hefur nánast tvöfaldast síðan árið 2012.
Helmingur allra þeirra sem eru á flótta í heiminum eru börn. Af þeim óskuðu 27.600 fylgdarlaus börn eftir alþjóðlegri vernd í fyrra og 110 þúsund börn voru skráð sem flóttafólk í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá UNHCR er vitað að þau eru margfalt fleiri en tölurnar segja til um.
Að sögn Filippo Grandi, flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, er þetta gríðarlegt áhyggjuefni og hann bendir á að oft haldi fólk því fram að þeir sem eru á flótta sé fólk sem er að sæta færis í leit að bættum lífskjörum. „Börn flýja ekki til þess að leita betri tækifæra. Börn flýja því þau eru í hættu,“ segir Grandi.
Hann segir að tölur síðasta árs sýni og staðfesti að sífellt fleiri eru á flótta undan stríðsátökum og ofsóknum.
Alls hröktust 13,6 milljónir á flótta árið 2018 og af þeim sóttu 2,8 milljónir um alþjóðlega vernd. 10,8 milljónir fóru á vergang í eigin landi. Á sama tíma sneru 2,3 milljónir til síns heima í fyrra. Það er fólk sem hafði verið á vergangi í eigin landi. Jafnframt komu 600 þúsund flóttamenn aftur til heimalandsins.
Samkvæmt skilgreiningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru 25,9 milljónir flóttamanna í heiminum. Skilgreiningin er: Flóttamaður er sá sem flýr land sitt og er utan heimalands síns „af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands og getur þess vegna ekki eða vill ekki fara aftur þangað. Um réttarstöðu flóttamanna í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1951.
Árið 2018 var fjöldi flóttamanna á heimsvísu 25,9 milljónir, 500.000 fleiri en árið 2017. Innan þessarar tölu eru 5,5 milljónir flóttamanna frá Palestínu sem eru undir vernd Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna.
Annar hópurinn er hælisleitendur - fólk sem er utan heimalands síns og nýtur alþjóðlegar verndar, en bíður niðurstöðu umsóknar sinnar um stöðu flóttamanns. Í lok árs 2018 voru 3,5 milljónir hælisleitenda í heiminum.
Þriðji og stærsti hópurinn, 41,3 milljónir, er fólk sem er á vergangi á öðrum svæðum innan síns eigin heimalands, hópur sem gjarnan er vísað til sem vegalaust fólk innan eigin lands eða IDP (Internally Displaced People).
Tveir þriðju hlutar þeirra sem eru á flótta eru íbúar fimm ríkja. Af þeim 25,9 milljónum sem eru undir eftirliti UNHCR eru 5,5 milljónir Palestínumanna og hafa palestínskir flóttamenn aldrei verið jafn fjölmennur hópur áður. Líkt og árið 2017 koma flestir þeirra flóttamanna sem falla undir skilgreiningu UNHCR frá Sýrlandi, Afganistan, Suður-Súdan, Búrma og Sómalíu.
Líkt og undanfarin ár eru Sýrlendingar fjölmennastir í hópi þeirra sem hafa neyðst til þess að flýja heimili sín. Alls eru 13 milljónir Sýrlendinga á flótta, 6,7 milljónir hafa flúið land og 6,2 milljónir eru á vergangi í heimalandinu. Um 140 þúsund Sýrlendingar hafa sótt um hæli annars staðar. Átta milljónir Kólumbíubúa er á flótta en 98% þeirra eru á vergangi í heimalandinu.
Sýrlendingar á flótta hafa flúið til 127 ríkja heims í sex heimsálfum. Þrátt fyrir það eru 85% þeirra í nágrannaríkjunum og er Tyrkland þar ríki sem hýsir flesta þeirra eða rúmlega 3,6 milljónir. Tæp milljón Sýrlendinga er í Líbanon og tæplega 700 þúsund eru í Jórdaníu. Ef litið er til ríkja utan þessa heimshluta eru flestir sýrlensku flóttamannanna í Þýskalandi eða rúmlega hálf milljón. Um 100 þúsund eru í Svíþjóð. Í Noregi eru tæplega 14 þúsund sýrlenskir flóttamenn.
„Það sem við sjáum í þessum tölum er enn frekari staðfesting á langtímafjölgun þeirra sem þurfa öryggi frá stríði, átökum og ofsóknum. Þó að orðræða um flóttafólk og farandfólk sé oft umdeild sjáum við líka mikið af örlæti og samkennd, sérstaklega í samfélögum sem hýsa mikinn fjölda flóttamanna. Við sjáum líka áður óþekkta þátttöku nýrra aðila svo sem í þróunarmálum, einkafyrirtæki og einstaklinga, sem endurspegla ekki aðeins heldur framkvæma anda Sáttmála um málefni flóttamanna,“ segir flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Filippo Grandi. „Við þurfum að byggja á þessum jákvæðu dæmum og efla enn frekar samkennd okkar með þeim þúsundum saklausra einstaklinga sem á hverjum degi eru þvingaðir á flótta frá heimilum sínum.“
Fjöldi fólks á flótta og vergangi heldur áfram að vaxa hraðar en lausnir finnast fyrir fólk sem fer á vergang. Besta lausnin fyrir flóttafólk er að geta snúið aftur heim sjálfviljugt, í öryggi og með reisn. Aðrar lausnir væru að verða hluti af samfélagi móttökulandsins eða setjast að í þriðja landi. Þrátt fyrir það settust aðeins 92.400 flóttamenn að í þriðja landi árið 2018, innan við 7 prósent af þeim sem biðu eftir því. Um 593.800 flóttamenn gátu snúið aftur heim, og 62.600 fengu ríkisborgararétt.
„Í hverjum flóttamannavanda, hvar sem hann á sér stað og hve lengi sem hann hefur staðið, verður að vera stöðug áhersla á lausnir og að fjarlægja hindranir í vegi þess að fólk geti snúið aftur heim,“ sagði Grandi. „Þetta er flókið verk sem UNHCR er stöðugt að vinna að en sem kallar líka á að öll lönd taki höndum saman með hagsmuni allra í huga. Þetta er ein mesta áskorun okkar tíma.“