Handtaka í tengslum við andlát Sala

Emiliano Sala átti að leika með Cardiff í ensku úrvalsdeildinni …
Emiliano Sala átti að leika með Cardiff í ensku úrvalsdeildinni en fórst þegar flugvél sem átti að flytja hann frá Frakklandi yfir Ermarsundið hrapaði. AFP

Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið handtekinn í tengslum við andlát argentínska knattspyrnumannsins Emiliano Sala. Hann lést í flugslysi á leið frá Nantnes til Cardiff í janúar.

Sala var þá að ganga frá félagaskiptum frá franska liðinu til Cardiff þegar flugvél sem átti að flytja hann yfir Ermarsundið brotlenti.

Fram kemur í frétt AFP að karlmaðurinn, sem er 64 ára gamall, hafi verið handtekinn í Norður-Yorks­hire í dag. Maðurinn er grunaður um manndráp en fjölskylda Sala og flugmannsins sem fórst einnig í slysinu hafa verið látnar vita af handtökunni.

Fram kemur í yfirlýsingu lögreglu vegna málsins að manninum hafi verið sleppt úr haldi en rannsókn haldi áfram.

Lögregla hvetur fólk til að velta því ekki of mikið fyrir sér hver maðurinn er því það gæti truflað rannsókn málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert