Morð að áeggjan netvinar

Lögreglan í Ancorage í Alaska.
Lögreglan í Ancorage í Alaska. Af vef lögreglunnar

Bandarísk stúlka hefur verið ákærð fyrir að drepa bestu vinkonu sína eftir að maður sem hún kynntist á netinu bauð henni 9 milljónir Bandaríkjadala, 1.140 milljónir króna, fyrir morðið.

Að sögn lögreglu var það 21 árs gamall maður, Darin Schilmiller, frá Indiana sem fékk Denali Brehmer, 18 ára stúlku sem er búsett í Alaska, til þess að fremja morðið. Þau kynntust á netinu en þar var Schilmiller undir fölsku flaggi sem milljarðamæringurinn Tyler. 

Við þingfestingu kom fram að þau hafi rætt á netinu um að nauðga og myrða einhvern í Alaska. Schilmiller á að hafa heitið Brehmer níu milljónum dala ef hún sendi honum myndskeið eða myndir af árásinni.

Hélt að þetta væri besta vinkona hennar

Brehmer fékk fjóra aðra unglinga með sér í verkið og ákváðu þau í sameiningu að Cynthia Hoffman, sem taldi Brehmer vera sína bestu vinkonu, yrði fórnarlamb þeirra.

Þann 2. júní tældu þau Hoffman, sem var 19 ára gömul, til þess að koma með sér í gönguferð norður af Anchorage. Þar kefluðu þau og skutu hana einu skoti í hnakkann áður en þau hentu líki hennar út í straumharða á. Lík Hoffman fannst tveimur dögum síðar. 

Haft er eftir föður Hoffman í fjölmiðlum í Alaska að hún hafi verið þroskaskert og andlegur þroski hennar svipaður og hjá 12 ára gömlu barni. 

Kayden McIntosh, 16 ára, Denali Brehmer, 18, og Caleb Leyland, …
Kayden McIntosh, 16 ára, Denali Brehmer, 18, og Caleb Leyland, 19, voru leidd fyrir dómara í Nesbett í gær. Skjáskot af Ancorage Daily News

Að sögn lögreglu fóru Brehmer og Kayden McIntosh, sem er 16 ára, með Hoffman að Thunderbird-fossunum undir því yfirskini að þau ætluðu í gönguferð meðfram ánni. McIntosh á að hafa skotið Hoffman með byssu í eigu Brehmer og henti hann síðan líkinu í ána. 

Lögreglan segir að Brehmer hafi verið í stöðugu sambandi við Schilmiller á meðan þau frömdu ódæðið, sendi hún honum myndir og myndskeið á Snapchat af ofbeldinu og morðinu.

Brehmer og McIntosh eru bæði í gæsluvarðhaldi. Schilmiller hefur einnig verið handtekinn auk þriggja ungmenna til viðbótar sem tóku þátt í að undirbúa aftökuna. Þau eru öll sex ákærð fyrir morð, samsæri um morð og fleiri ákæruliði. Schilmiller og Brehmer eru einnig ákærð fyrir barnaníð og vörslu barnaníðsmynda.

Þegar lögreglan rannsakaði síma Brehmer í síðustu viku fundust myndskeið af henni beita 15 ára gamla stúlku kynferðislegu ofbeldi að skipan Schilmiller. 

Samkvæmt dómsskjölum játaði Schilmiller að hafa þvingað Brehmer til þess að beita ungar stúlkur kynferðislegu ofbeldi eftir morðið. Bæði Brehmer og Schilmiller eiga yfir höfði sér margfaldan lífstíðardóm fyrir morð og barnaníð. 

Schilmiller hafði áður reynt að komast í samband við aðra einstaklinga á netinu með svipuðum hætti án árangurs. 

Á blaðamannafundi í gær sagði Bryan Schroder, ríkissaksóknari í Alaska, að foreldrar ættu að  líta í eigin barm og fylgjast betur með því sem börn þeirra eru að gera á netinu. „Á sama tíma og netið býður upp á marga góða hluti þá getur það einnig verið dimmur staður,“ sagði Schroder. „Foreldrar ættu að fylgjast með gjörðum barna sinna á netinu.“

Sjá umfjöllun Ancorage Daily News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert