Áætlun Donalds Trump Bandaríkjaforseta í samskiptum ríkisins við Íran, þar á meðal að segja sig frá kjarnorkusamkomulagi ríkjanna, er „sjálfskapað stórslys“ að mati Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna.
Biden, sem sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrata á næsta ári, kaus að tjá sig um stöðuna í milliríkjasamskiptum Bandaríkjanna og Írans eftir að bandarísk yfirvöld staðfestu að dróni á vegum hersins var skotinn niður af Írönum. Dróninn var skotinn niður með eldflaug íranska hersins þar sem hann var í alþjóðlegri lofthelgi yfir Hormuz-sundi. Írönsk yfirvöld segja aftur á móti að dróninn hafi verið skotinn niður í íranskri lofthelgi.
Trump tjáði sig um atvikið á Twitter og segir hann Írani hafa gert mikil mistök.
„Með því að hörfa frá ríkiserindrekstri hefur Trump aukið líkurnar á hernaðarátökum,“ segir Biden í yfirlýsingu.
Biden var varaforseti í forsetatíð Barack Obama og kom meðal annars að samningaviðræðum við gerð kjarnorkusamkomulags stórveldanna fimm við Íran árið 2015. Í samkomulaginu felst meðal annars takmarkanir á auðgun úrans af hálfu íranskra stjórnvalda.
Bandaríkin ákváðu að draga sig úr samkomulaginu í fyrra og refsiaðgerðir gegn Íran hófust að nýju í kjölfarið. Í maí síðastliðnum greindu Íranar frá því að þeir ætluðu ekki fylgja þessum takmörkunum lengur vegna ákvörðunar Bandaríkjamanna.
Mikil spenna hefur ríkt að undanförnu á milli Írans og Bandaríkjanna vegna árásar á tvö tankskip í Ómanflóa og spennan eykst enn. Biden segir Íran vera „slæman geranda í alþjóðakerfinu sem brýtur gegn mannréttindum og styðji við hryðjuverk.“ Hann segir því mikilvægt að forseti Bandaríkjanna taki vel ígrundaðar ákvarðanir til að sporna gegn þeirri ógn sem stafi af Íran.
Gera má ráð fyrir að málefni Íran og Bandaríkjanna verði fyrirferðamikil þegar fyrstu kappræður forsetaefna Demókrataflokksins fara fram í Miami í næstu viku. Þar mun Biden mæta 19 öðrum frambjóðendum flokksins.