22. september næstkomandi verður bílalaus dagur í bresku höfuðborginni London. Verður um 20 kílómetra vegsvæði í miðborginni lokað og fjölmargir viðburðir verða haldnir á bílalausum vegum. Þá hafa 18 af 32 úthverfum London greint frá þátttöku sinni í deginum og verða vegir þar gerðir að „Leikgötum“ þar sem börn geta safnast saman og leikið sér á öruggan hátt.
Sadiq Khan, borgarstjóri London, greindi frá áformunum fyrr í dag eftir því sem fram kemur á vef CNN, og er dagurinn liður í aðgerðum yfirvalda að draga úr mengun og svifryki í borginni, auk þess sem borgarar fái tækifæri til að „endurupplifa“ borgina.
Yfir tvær milljónir íbúa í London eru búsettir á svæðum þar sem niturdíoxíð magnið er yfir löglegu hámarki, þeirra á meðal eru 400.000 börn undir átján ára aldri.
Samkvæmt skýrslu um loftgæði á heimsvísu er loftmengun fimmta algengasta dánarorsök í heiminum og veldur til að mynda fleiri dauðsföllum en áfengi, eiturlyf og vannæring.
Skrifstofa borgarstjóra tilkynnti í apríl að ökutæki séu ábyrg fyrir um helmingi af því skaðlega magni niturdíoxíð sem finna má í andrúmslofti London og ýtir undir aukna tíðni ýmissa heilsufarsvandamála á borð við astma, krabbamein og heilabilanir.
Í apríl varð London fyrsta borgin í heiminum til að kynna fyriráætlanir um sérstakt svæði í borginni þar sem útblástur ökutækja verður að vera undir ákveðnu marki og verða eigendur þeirra ökutækja sem ekki uppfylla strangar kröfur um magn útblásturs sektaðir.