Rússar greindu frá því í dag að vísindamenn hefðu gómað soltinn ísbjörn sem fannst ráfandi um í borginni Norilsk í norðurhluta Rússlands á dögunum. Björninn var mörg hundruð kílómetra frá náttúrulegum heimkynnum sínum. Dýrinu verður komið í dýragarð.
Samkvæmt myndum og myndskeiðum af birninum virtist hann ráðvilltur þar sem hann leitaði að æti í Norilsk, sem er nyrsta borg í heimi.
Fram kemur í frétt AFP að ísbirnir hafi orðið tíðari gestir í bæjum og borgum í norðurhluta Rússlands vegna loftslagsbreytinga. Er það talið vera vegna þess að þeir finna ekki nægilegt æti og leiti því annað, þar sem þeir sjáist meðal annars skófla í sig úr ruslatunnum.
Dýralæknar skoða nú dýrið sem ráfaði um götur Norilsk. Áætlanir gera ráð fyrir því að það verði sent í dýragarð í borginni Krasnoyarsk á morgun.
Í yfirlýsingu kom fram að dýrið væri of veikburða til að hægt væri að hleypa því aftur á náttúruleg heimkynni sín.