Sjálfshjálpargúrú fundinn sekur

Verjandi Keith Raniere á leið í réttarsalinn í New York …
Verjandi Keith Raniere á leið í réttarsalinn í New York í gær. AFP

Leiðtogi bandarískra samtaka, sem hefur verið líkt við sértrúarsöfnuð, var í gær dæmdur sekur um fjárglæfrastarfsemi, kynlífsþrælkun og aðra glæpi í starfi sínu sem leiðtogi samtakanna Nxivm.

Sam­tök­in Nx­i­vm voru stofnuð árið 2003 í New York sem sjálfs­hjálp­ar­sam­tök. Leiðtogi þeirra, Keith Raniere, sem er 58 ára að aldri, neyddi fjölda kvenna til að hafa við sig kynmök þar sem hann væri leiðtogi lífs þeirra. Jafnframt voru þær brennimerktar með upp­hafs­stöf­un­um í nafni hans þegar þær gengu til liðs við samtökin. 

Fram kom við réttarhöldin að þeir sem gangi til liðs við Nxivm hafi þurft að reiða af hendi mörg þúsund dali til að fá að taka þátt í nám­skeiðum sem eiga að aðstoða þá við að klífa met­orðastig­ann inn­an Nx­i­vm. 

Nxivm-samtökin hafa vakið mikla athygli allt frá stofnun enda margir þekktir einstaklingar sem hafa stutt samtökin. Þar á meðal Smallville-leikkonan Allison Mack og hafa útibú samtakanna verið stofnuð víða um Bandaríkin. 

Raniere var handtekinn í Mexíkó í fyrra og stóðu réttarhöldin yfir í sex vikur. Hann var fundinn sekur um alla sjö liði ákærunnar, þar á meðal nauðung og barnaníð. Hann á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi en refsing hans verður kveðin upp 25. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka